Líkleg mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs (SO2) í Reykjavík

 í flokknum: Birta á forsíðu, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Frístundaheimili (6-9ára)

Samkvæmt Veðurstofu Íslands er líklegt að gasmengun geti í dag og á morgun borist frá eldgosinu í Geldingadölum til höfuðborgarinnar og er möguleiki á að mengunar verði vart um tíma.

  • Loftgæði

Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og á vef Umhverfisstofnunar má sjá kort yfir staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík en þar er hægt að fylgjast með styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) og annarra efna. Liturinn er grænn ef styrkurinn er undir heilsuverndarmörkum fyrir öll efni. Fari styrkur einhvers efnanna yfir heilsuverndarmörk breytist liturinn í gulan eða rauðan. Sýndur er hæsti styrkur efna á hverjum tíma.

Til að fá ítarlegri upplýsingar um loftgæði í Reykjavík má velja mælistað á kortinu. Styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) er hægt að skoða í loftgæðafarstöð II, sem nú er staðsett við Bústaðaveg/Háaleitisbraut, loftgæðamælistöðinni við Grensásveg og loftgæðamælistöðinni á Norðlingaholti. Utan Reykjavíkur eru mælistöðvar sem mæla SO2 staðsettar á eftirfarandi stöðum: Dalsmára í Kópavogi, Hvaleyrarholti og Norðurhellu í Hafnarfirði, Vogum á Vatnsleysuströnd, Lerkidal í Njarðvík og Nesvegi í Grindavík.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vísar til upplýsinga í töflu Umhverfisstofnunar sem sýnir rétt viðbrögð við SO2 mengun og áhrif á heilsufar. Hún útlistar viðbrögð eftir styrk mengunar og eftir því hvort um heilbrigða einstaklinga sé að ræða eða einstaklinga sem eru viðkvæmir fyrir vegna sjúkdóma í lungum og/eða hjartasjúkdóma. Það skal tekið fram að börn flokkast sem viðkvæmir einstaklingar þó að þau hafi ekki undirliggjandi sjúkdóma.

Litirnir í töflunni miða eingöngu við styrk SO2 í 10-15 mínútur. Áhrif loftmengunar á heilsu eru háð þeim tíma sem fólk dvelur í menguninni. Heilsuverndarmörk fyrir klukkutíma eru 350 míkrógrömm á rúmmetra (µg/m3) og heilsuverndarmörk fyrir sólarhring eru 125 µg/m3. Samkvæmt töflunni er mælt með því að þegar styrkur SO2 fer yfir 2000 µg/m3 skuli allir einstaklingar forðast áreynslu utandyra.

Gengur oftast hratt yfir

Þegar mengun frá eldgosinu í Geldingadölum berst inn á höfuðborgarsvæðið geta komið háir mengunartoppar sem hafa oftast gengið fljótt yfir. Mengun í lægri styrk getur varað í lengri tíma. Viðkvæmir einstaklingar, forsvarsmenn barna og atvinnurekendur eiga að fylgjast með loftgæðamælingum, hafi borist tilkynningar um háan styrk SO2. Mælingar má sjá á loftgæðavef Reykjavíkurborgar, og á vef Umhverfisstofnunar. Miðað skal við þær mælistöðvar sem næst liggja vinnustöð starfsmanna þegar metið er hvort vinnuaðstæður séu viðunandi. Einnig er bent á að fylgjast með gasspá á  https://dispersion.vedur.is/#/page/run_list.

Almennar ráðleggingar varðandi gasmengun eru eftirfarandi:

  • Lungna og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk
  • Andið sem mest með nefi og forðast líkamlega áreynslu utandyra í mikill mengun því það dregur úr SO2 sem kemst niður í lungu.
  • Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir menguninni.
  • Athugið að rykgrímur veita enga vörn gegn gasmengun

Ráðstafanir til varnar SO2 mengun innandyra

  • Lokaðu gluggum og minnkaðu umgengni um útidyr.
  • Hækkaðu hitastigið í húsinu.
  • Loftaðu út um leið og loftgæði batna utandyra.

Upplýsingabæklingur landlæknis á þremur tungumálum

Auk ofangreindra upplýsinga má finna ráðleggingar vegna heilsufarslegra áhrifa að völdum loftmengunar á síðu landlæknis. Þar má einnig finna ný uppfærðar leiðbeiningabækling fyrir almenning (2. apríl 2021) á þremur tungumálum sem heitir Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum.

Hlekkir á bækling:

Íslenska

English

Polski

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt