Barnasáttmála- og réttindagönguvika frístundaheimila Tjarnarinnar

 í flokknum: Birta á forsíðu, Draumaland, Eldflaugin, Frístundaheimili (6-9ára), Frostheimar, Halastjarnan, Selið, Skýjaborgir, Undraland

Í þessari viku er barnasáttmála- og réttindagönguvika í öllum frístundaheimilum Tjarnarinnar, en rauði þráðurinn í starfi frístundaheimilanna er að börnin hafi val um þátttöku og viðfangsefni og að lýðræðisleg vinnubrögð séu í heiðri höfð þannig að raddir þeirra, skoðanir og þarfir leggi grunninn að starfinu.

Í þessari viku er sérstök áhersla lögð á það að kenna börnunum um réttindi barna, barnasáttmálann, lýðræðisleg vinnubrögð og að þekkja muninn á réttindum og forréttindum,en frístundastarf er góður vettvangur til að vinna með réttindi barna og barnalýðræði. Til þess að miðla þekkingunni er notast við verkfæri hins óformlega náms, meðal annars með því að miðla þekkingu í gegnum fjölbreytt og skapandi verkefni og leiki, sem og samræður og ígrundun. Meðal þess sem krakkarnir hafa gert er vikunni er að læra um réttindi sín í gegnum leiki, farið í spurningakeppnir þar sem reynir á þekkingu þeirra á réttindum barna, samið ljóð sem fjalla um réttindi barna og búið til skilti fyrir réttindagöngu barna sem fer fram á föstudaginn. Í göngunni ætla börnin í 2 bekk að taka sér pláss í almannarýminu og ganga fylktu liði með réttindaspjöldin sín niður Skólavörðustíginn og Bankastrætið og að Alþingishúsinu, þar sem þingmönnum verður afhent áskorun þess efnis að muna eftir réttindum barna og þeim skyldum sem barnasáttmálinn leggur á löggjafann í allri vinnu sinni. Því næst verður haldið í ráðhúsið, þar sem borgarstjórinn tekur á móti krökkunum með hátíðlegri tölu og veitingum og veitir viðtöku áskorun til hans og borgarfulltrúa um að hafa í heiðri réttindi barna þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á börn. Viðburðinum lýkur síðan á því að Jón Víðis töframaður töfrar allar viðstadda upp úr skónum áður en haldið er heim í helgarfrí. Með réttindagöngunni lýkur þemavikunni, en vinnunni með lýðræðisleg vinnubrögð og réttindi barna er þó hvergi nærri lokið í frístundaheimilunum, enda er það eitt helsta meginstefið í starfinu okkar og eitthvað sem er innlimað í starfshætti okkar.

Að lokum er gaman að segja frá því að í einhverjum frístundaheimilunum okkar starfa ofurhugar sem ætla að freista þess að ræna völdum í einn dag og svipta börnin réttinum til að velja sér viðfangsefni þann daginn. Þetta er gert til þess að efla með þeim meðvitund um mikilvægi þess að nota rétt sinn til að hafa áhrif og láta í sér heyra, en tilburðum einræðisherranna er alla jafna mætt kröftuglega með friðsælum mótmælum barnanna, sem ná þannig að hrekja hann af stóli og koma aftur á lýðræðislegri stjórnskipan þar sem raddir allra skipta máli og þau fá að hafa áhrif.

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt