Rafrænar félagsmiðstöðvar fyrir 10-12 ára krakka

 í flokknum: Birta á forsíðu

Samkomubannið og skert þjónusta hefur ekki stoppað starfsfólk félagsmiðstöðva Tjarnarinnar í að komast til móts við og þjónusta krakkana eftir bestu getu. 10-12 ára starfið er allt orðið rafrænt og hægt er að taka þátt í starfi félagsmiðstöðvarinnar heima í stofu. Félagsmiðstöðvarnar bjóða upp á virkilega fjölbreytta dagskrá sem allir geta tekið þátt í, ungir sem aldnir og hvetjum við fjölskyldurnar til að njóta dagskrárliðanna saman.

Félagsmiðstöðin 105 í Háteigsskóla býður krökkunum að taka þátt í strembnum en þrælskemmtilegum þrautum og gátum. Einnig skora þau á krakkana með einstaklega sniðugri tónlistaráskorun og taka þátt í mjög skapandi ljósmyndamaraþoni. Hver veit nema það leynist lítill atvinnuljósmyndari innra með þér? Landafræði unnendur og sérfræðingar geta látið reyna á snilligáfu sína og athugað hvort þau viti hvaða lönd eiga fánana sem starfsfólkið hefur valið. Við vitum nefnilega að krakkarnir í 105 eru alveg stórkostlega gáfuð og því fara þau létt með þessar þrautir.

Hér er hlekkur á dagskrá 105: https://padlet.com/hundradogfimm/s0xmnp5lie1i

Félagsmiðstöðin 100&1 hvetur fjölskyldur til að koma saman og læra Daða dansinn.  Það er ekki bara góð hreyfing heldur æðislega skemmtilegt og tilvalið til að taka upp á myndband og eiga. Einnig bjóða þau upp á skemmtilegar vangaveltur í leiknum hvort myndir þú frekar. Þar má finna erfiðar siðferðislegar spurningar eins og hvort myndir þú bara vilja borða kleinuhringi það sem eftir er eða bara nammi það sem eftir er. Það væri hægt að skrifa heila doktorsritgerð um þessa spurningu. Þakklætisæfingin sem er í boði hjá 100&1 er virkilega góð æfing sem eflir andlegt heilbrigði og léttir lundina.

Hér er hlekkur á dagskrá 100&1: https://padlet.com/100ogeinn/87bfsdyxvw1j

Félagsmiðstöðin Gleðibankinn hefur tekið saman þrautir sem reynast ekki svo auðveldar að leysa. Hægt er að dunda sér við að brjóta heilann um t.d. hverju maður getur haldið á með hægri en aldrei með vinstri. Ansi erfitt en við höfum tröllatrú á bráðgáfuðu krökkunum í Gleðibankanum. Þau bjóða krökkunum að kynnast fólkinu sínu betur með því að spyrja þau hvaða lag var þeirra uppáhald á barnsaldri og hlusta svo á lögin saman. Þetta býður upp á algjörlega stórkostlega samveru ásamt því að víkka sjóndeildarhringinn hvað varðar tónlist! Því næst er hægt að reyna á landafræði kunnáttu sína og raða löndum eftir heimsálfum.

Hér er hlekkur á dagskrá Gleðibankans: https://padlet.com/gledibankifelagsmidstod/x0bomlt8hgmr?fbclid=IwAR22M98bryrEFTaEmhUxd5pNffwtMUpNFmOJsmTw7JGukepLOffKwvYisaY

Félagsmiðstöðin Frosti er með gátur, tilraunir og spurningu dagsins. Krakkarnir í Frosta hafa lengi verið þekkt fyrir að vera þrautakóngar og verða því ekki lengi að leysa þrautirnar. Það er ekki langt í góðmennskuna hjá frostafólkinu því þau hvetja krakkana til þess að gera góðverk. Góðverkin gleðja ekki bara þeirra eigin sál heldur líka fólkið í kringum þau. Þau láta ekki vanta hreyfingu inn í dagskránna og eru búin að finna til einstaklega gott dansíókí myndband sem hægt er að hrista sig við. Starfsfólkið hefur einnig búið til bóka- og kvikmynda meðmælalista. Þar geta krakkarnir fundið sér bók eða mynd við sitt hæfi.

Hér er hlekkur á dagskrá Frosta: https://sway.office.com/5BJ9YJM8Mv0xJDVV?ref=Facebook&fbclid=IwAR3kSIWWVjRsUtypjFHJj1PD6vWq031XOX34hCkcMkcZF6HBrH4nPImzn_s

Eins og sjá má eru þetta allt stórgóðar dægrastyttingar og vonumst við til þess að krakkarnir njóti þess í botn að taka þátt í rafrænni félagsmiðstöð!

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt