Forsíða / Réttindaganga barna

Í tilefni þess að barnaréttindaviku frístundaheimila frístundamiðstöðvar Tjarnarinnar, sem er sameinuð frístundamiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, er nú að ljúka fara börnin 2. bekk í frístundaheimilunum Draumalandi við Austurbæjarskóla, Eldflauginni við Hlíðaskóla, Halastjörnunni við Háteigsskóla, Selinu við Melaskóla, Skýjaborgum við Vesturbæjarskóla og Undralandi við Grandaskóla í réttindagöngu á eftir. Einnig býðst börnum í 3. og 4. bekk í Draumalandi, Eldflauginni, Halastjörnunni og Frostheimum, safnfrístund fyrir 3. og 4. bekk í Vesturbæ að velja að fara í gönguna með 2. bekknum. Áætlum við að um 300 börn muni taka þátt í göngunni að þessu sinni. Markmið réttindagöngunnar er að veita börnunum vettvang og rými í almannarýminu til þess annars vegar að fagna lögvörðum réttindum sínum og að minna aðra á það að börn eiga ýmis réttindi sem varin eru með lögum, en þar ber hæst lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða barnasáttmálinn eins og hann er alla jafna nefndur. Barnasáttmálinn var einmitt undirritaður 20. nóvember 1989 og því er barnaréttindavikan ávallt haldin í kringlum afmælisdag hans.

 

Rauði þráðurinn í starfi frístundaheimilanna er að börnin hafi val um þátttöku og viðfangsefni og að lýðræðisleg vinnubrögð séu í heiðri höfð þannig að rödd þeirra, skoðanir og þarfir leggi grunninn að því starfi sem unnið er í hverju frístundaheimili. Í réttindavikunni er sérstök áhersla lögð á það að kenna börnunum um réttindi barna, barnasáttmálann, lýðræðisleg vinnubrögð og að þekkja muninn á réttindum og forréttindum. Frístundastarf er góður vettvangur til að vinna með barnalýðræði og réttindi barna, en notast er við verkfæri hins óformlega náms til þess að miðla þekkingunni, svo sem í gegnum fjölbreytt og skapandi verkefni og leiki, sem og samræður og ígrundun. Barnasáttmálinn fjallar um ýmis mikilvæg réttindi barna, en þeim má í grófum dráttum skipta í þrjá flokka; vernd, umönnun og þátttöku. Almennur skilningur er á því að börn eigi rétt á umhyggju og vernd, jafnt foreldra sinna sem og samfélagsins alls, enda eru vernd og umhyggja í hugum flestra tengd grunnréttindum barna órjúfanlegum böndum. Réttur barna til þátttöku og þess að tekið sé tillit til skoðana þeirra á málum er þau varða í samræmi við aldur þeirra og þroska og er hins vegar alla jafna ekki jafn mikið í umræðunni og fólki er kannski ekki jafn tamt að tengja þessi þætti grunnréttindum barna. Með löggildingu barnasáttmálans var réttur barna til þátttöku hins vegar gerður jafnrétthár rétti þeirra til verndar og umhyggju. Á það vilja börnin benda með réttindagöngunni og er þetta verkefni liður í því að styrkja rödd barnanna og gera þau meðvituð um réttindi sín og annarra.

 

Gangan hefst kl. 14:50 á Skólavörðuholtinu og fer í lögreglufylgd niður Skólavörðustíginn og Bankastrætið, fram hjá Stjórnarráðinu og upp Hverfisgötuna uns komið er að Þjóðleikhúsinu. Þar er börnunum boðið upp á sérstaka hátíðardagskrá í tilefni af þessu framtaki þeirra, þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun ávarpa hópinn kl. 15:30. Að því loknu munu leikararnir Oddur Júlíusson og Gói sýna atriði úr Lofthrædda erninum og flytja lög úr Fjarskalandi. Dagskránni lýkur síðan á stuttu ávarpi frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Sjá, nánari tímasetningar á dagskránni hér að neðan.

 

14: 50 – Gangan leggur af stað frá Skólavörðuholtinu.

15.20 – Börnin mæta í Þjóðleikhúsið

15.30 – Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, ávarpar börnin.

15.37 – Oddur Júlíusson sýnir atriði úr Lofthrædda erninum Örvari

15.50 – Gói kynnir Fjarskaland

15.55 – Flutt verður lag/lög úr Fjarskalandi

16.05 – Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, ávarpar börnin.

16.12 – Dagskrá lýkur

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt