Menntavika

 í flokknum: Birta á forsíðu, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára)
Dagana 1.og 2. október fer fram árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Háskóla Íslands um rannsóknir, nýbreytni og þróun. https://menntakvika.hi.is/
Tjörnin er afar stolt af sínu flotta fagfólki en frá Tjörninni koma 4 spennandi erindi.

Við hvetjum alla áhugasama til að fylgjast með og í fréttinni er slóð á streymi málstofanna.

Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð, vettvangsstarf félagsmiðstöðva í Reykjavík

Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri, Frístundamiðstöðin Tjörnin og Andrea Marel, deildarstjóri, Frístundamiðstöðin Tjörnin, Vesturbær, Miðborg og Hlíðar

Haustið 2018 fékk verkefni sem miðaði að því að ramma betur inn vettvangsstarf (e. field work) félagsmiðstöðva í Reykjavík styrk úr B-hluta sjóðs menntastefnu Reykjavíkur, „Látum draumana rætast“. Frístundamiðstöðin Tjörnin stýrði verkefninu fyrir hönd félagsmiðstöðva í borginni. Í málstofunni verður farið yfir markmið, leiðir og framkvæmd á verkefninu. Þær afurðir sem hafa orðið til í þessu nýsköpunarverkefni eru meðal annars handbók um foreldrarölt, handbók og fræðslupakki um vettvangsvinnu fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva auk þess sem stofnuð var flakkandi félagsmiðstöð sem hlaut nafnið Flotinn. Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð, tók til starfa sumarið 2020 en strax þá kom í ljós að mikil þörf er á að starfsmenn félagsmiðstöðva séu sýnilegir á vettvangi og til staðar fyrir unglinga í hverfum borgarinnar. Unnið var með helstu þætti menntastefnunnar; félagsfærni, heilbrigði, sjálfseflingu, fagmennsku og samstarf.

Draumasviðið: Leiklistaráfangi, samstarfsverkefni félagsmiðstöðvar og skóla

Eva Halldóra Guðmundsdóttir, forstöðumaður, Félagsmiðstöðin Tjörnin

Á dögum þar sem félagslegu öryggi okkar er ekki einungis ógnað í raunheimum heldur einnig á netinu þróa unglingar með sér óraunhæfar kröfur til eigin lífs, hvernig þau „eiga“ að líta út, hvað er eðlilegt í samskiptum og hver vinnan er að baki sigrunum. Oft eru þessar raddir ráðandi í lífi barna og unglinga og því þurfa þau leiðsögn við að læra gagnrýna hugsun, sjálfseflingu og samkennd. Draumasviðið var samstarfsverkefni Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, Austurbæjarskóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem hlaut styrk úr B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Markmið verkefnisins var að þróa ákveðið mótsvar við þessum áskorunum í lífi unglinga í gegnum „Draumasviðið“, leiklistaráfanga sem boðið var upp á sem val fyrir 8.­–10. bekk í Austurbæjarskóla. Í málstofunni verður farið yfir hvernig samsköpunarvinna leiðir að markmiðum áfangans. Forsendur áfangans voru að listin væri rannsóknarleiðangur þar sem unnið væri með spurningar og forvitni þátttakenda virkjuð. Mikilvæg niðurstaða verkefnisins var að unglingar fengju vettvang til að kynnast aðferðum og leiðum til að skapa sjálfstætt, vinna í hópi og leiða hópavinnu. Í samsköpunarvinnu (e. devised theatre) í sviðslistum hefur hver og einn mikilvægu ábyrgðarhlutverki að gegna við að framfylgja sýn hópsins. Í gegnum ferlið og þátttöku í áfanganum teljum við að unglingarnir hafi axlað þá ábyrgð sem um leið hafði áhrif á trú þeirra á eigin getu og efldi sjálfstraust þeirra.

Essið: Ræktun jákvæðrar sjálfsmyndar á umrótatímum – áhrif dagbókarskrifa á unglingsstelpur í hópastarfi í félagsmiðstöð og þróun námsefnis því tengdu

Kristín Dóra Ólafsdóttir, nemi í LHÍ og starfsmaður félagmiðstöðvarinnar Frosta, Tjörnin frístundamiðstöð, Vesturbær, Miðborg og Hlíðar.

Verkefnið mitt, Essið, vann ég í sértæku hópastarfi í félagsmiðstöð í Reykjavík. Helstu markmið voru að vinna að uppbyggingu sjálfstrausts hjá stelpum í 10. bekk. Hópurinn var starfræktur á vorönn 2019 og 2020 undir minni stjórn og með aðstoð Brynju Helgadóttur, tómstunda- og félagsmálafræðings. Þær aðferðir sem ég notaði í hópastarfinu byggja á persónulegri reynslu minni af breyttu sjálfsmati með hugarfarsbreytingu, dagbókarskrifum og skapandi vinnu. Ég studdist við rannsóknir sálfræðinga á gagnsemi skrifa í sálfræðimeðferðum unglinga. Þessar aðferðir vildi ég prófa með hóp sem er á miklum krossgötum í lífi sínu, á leið úr grunnskóla í menntaskóla.
Félagsmiðstöðvar og það starf sem fer fram innan þeirra er hluti af heildstæðu námi barna og unglinga. Í hópastarfinu Essinu prófaði ég verkefni sem ég samdi með það að markmiði að deila útkomunni í kennsluleiðbeiningum fyrir aðra sem vilja leiða svipað starf. Þær leiðbeiningar heita einnig Essið. Framgang hópastarfsins 2019 og persónulegan ávinning stelpnanna mældi ég með þremur spurningalistum yfir tímabilið sem ég greindi jafnóðum. Þar kom í ljós að allar sem voru virkar í hópnum og unnu verkefnin með okkur fundu fyrir jákvæðum áhrifum við að skrifa í dagbók og mæta á fundina í hópastarfinu. Í hópnum sem við vorum með 2020 gátum við byggt á fyrri reynslu og notað kennsluleiðbeiningarnar sem ég bjó til árið áður.

Rafíþróttaver – framsækin leið í menntun

Gunnlaugur V. Guðmundsson, forstöðumaður í Gleðibankanum, frístundamiðstöðin Tjörnin, Vesturbær, Miðborg og Hlíðar

Menntastefna Reykjavíkurborgar byggir á grunnstefjum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess. Þetta rímar við aðalnámskrá sem segir að í skólum þurfi að skapa jákvæðan skólabrag, heilsueflandi umhverfi og hlúa að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum, s.s. jákvæðri sjálfsmynd, hreyfingu, næringu, hvíld, andlegri vellíðan, góðum samskiptum, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningi á eigin tilfinningum og annarra. Ný menntastefna gengur lengra með áherslu á framsækni og nútímavæðingu kennsluaðferða. Nálgun félagsmiðstöðva og í raun samfélagsins að tölvuleikjum og mikilli spilun var lengi sú að um félagslegan vanda væri að ræða. Horft var framhjá möguleikum sem felast í að styrkja spilara innan síns helsta áhugasviðs. Gleðibankinn ásamt Eldflauginni og Hlíðaskóla fékk B-hluta styrk nýrrar menntastefnu til að setja upp rafíþróttaver. Áhersla hefur verið lögð á að líta á tölvuleikjaspilun sem íþrótt og því fylgi ákveðin viðhorf og lífsstíll. Með að æfa tölvuleiki sem íþrótt hefur tekist að styrkja sjálfsmynd barna og unglinga og mæta þörfum ákveðins hóps sem erfitt hefur verið að mæta. Í gegnum starfið hefur tekist að stuðla að heilbrigðari lífsstíl, betri skólasókn, meiri félagslegri virkni og vera til staðar í veröld tölvuleikja þar sem samskipti geta verið mjög eitruð og röng. Það er ábyrgð fullorðinna og þar af leiðandi menntastofnana að fylgjast með frítíma barna og unglinga og tryggja öryggi þeirra. Erindið fjallar um hvernig rafíþróttaver undir leiðsögn fagaðila er framsækin leið til að hugsa menntun og árangur sem hefur náðst með starfinu.

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt