Aðgerðaráætlun Undralands 2021-2022

Frístundaheimilið Undraland heyrir undir frístundamiðstöðina Tjörnina sem þjónustar Vesturbæ, Miðborg og Hlíðar. Tjörnin heyrir undir skóla- og frístundasvið Reykjavíkur.

Undraland þjónustar börn í 1. og 2. bekk Grandaskóla og er staðsett í og við skólann.

Forstöðumaður er Eyrún Eva Haraldsdóttir og aðstoðarforstöðumaður Bryndís Þórólfsdóttir. Starfsmenn eru 13 með fjölbreytta menntun og reynslu sem er til þess fallin að auðga og efla starfið með börnunum.

Hlutverk og gildi Tjarnarinnar:

Frístundamiðstöðin Tjörnin hefur einsett sér að vera framsækið forystuafl í skóla- og frístundastarfi og rík áhersla er lögð á að börnum og unglingum standi til boða frístundastarf sem hefur uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Til þess að ná því vinnum við með virka þátttöku, reynslunám, lýðræði og mannréttindi og hugum sérstaklega að því að virkja einstaklinga sem þurfa sérstaka hvatningu og stuðning vegna fötlunar eða félagslegrar stöðu. Starf á vegum frístundamiðstöðva er í eðli sínu forvarnarstarf þar sem unnið er með viðhorf og atferli barna og unglinga í átt til heilbrigðs lífsstíls og virkni í samfélaginu. Við höfum sett okkur ákveðin gildi sem leggja grunn að öllu starfi á okkar vegum, en þau eru:

Framsækni – gott getur alltaf orðið betra!

Umhyggja –  okkur er ekki sama!

Fjölbreytileiki –  með opnum hug opnast dyr!

Um aðgerðaráætlunina:

Aðgerðaráætlun þessi er unnin sem liður í starfsætlun Tjarnarinnar, en starfsáætlanir frístundamiðstöðva skóla- og frístundasviðs eru unnar út frá Menntastefnu Reykjavíkurborgar og Stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025. Einnig er tekið mið af lögum og reglugerðum, upplýsingum um þátttöku í starfinu, niðurstöðum kannana um starfið og rannsóknum á stöðu barna og unglinga í hverfinu. Starfsáætlunin tekur gildi 1. september 2021 og gildir til 31. ágúst 2022. Starfsáætlun Tjarnarinnar í heild sinni má nálgast á heimasíðu Tjarnarinnar www.tjornin.is, en þar má finna nánari upplýsingar um markmið og leiðir í starfinu.

Aðgerðaráætlun hverrar starfseiningar er sett upp í svipuðu formi og skóladagatal til að foreldrar og forráðamenn geti fylgst með dagskránni hverju sinni, en vakin er athygli á því að aðgerðaráætlunin er lifandi skjal sem getur tekið breytingum yfir starfsárið.

Hér aftast munum við lista upp helstu verkefnin og viðburðina sem eru í hverjum mánuði starfsársins fyrir sig. Þess ber að gæta að þessi listi er ekki tæmandi eða bindandi, enda er starfið okkar lifandi vettvangur sem tekur mið af þörfum þess barna- og starfsmannahóps sem hjá okkur er. Hann á þó að gefa góða mynd af því hvernig við vinnum og hvernig við setjum framangreind markmið og áhersluþætti í framkvæmd í raunverulegum verkefnum. Ávallt er boðið upp á útiveru, hreyfingu og frjálsan leik í bland við fjölbreyttar smiðjur, klúbba og þematengd verkefni. Með þessu móti náum við góðu jafnvægi á milli þess að leyfa börnunum að njóta sín með félögum sínum og sinna sínum hugðarefnum þegar formlegri dagskrá skólans sleppir og  að fá útrás fyrir hreyfiþörf sína, náttúrulega forvitni og skapandi hugsun þannig að þau fái það mesta út úr veru sinni í frístundaheimilinu. Áhersla er lögð á það að styðja við lestrarnám barnanna með óformlegum hætti, svo sem með því að hafa gott aðgengi að bókum í frístundaheimilinu og með því að hafa ritmálið sýnilegt í umhverfinu, m.a. með því að merkja helstu hluti og rými í starfinu með bæði orðmynd og mynd. Þannig náum við líka að styðja við og ýta undir markvisst íslenskunám hjá börnum sem ekki eru með íslensku að móðurmáli. Við erum einnig dugleg að nýta okkur bókasöfnin í hverfinu og erum í góðu samstarfi við skólabókasafnið.

Nálgun við gerð aðgerðaráætlunar:

Við gerð þessarar aðgerðaráætlunar var leitast við að hafa víðtækt samráð við sem flesta hagsmunaaðila til þess að geta sem best mætt þörfum þeirra og óskum um þjónustu. Meðal annars var leitað eftir hugmyndum barnanna um það hvernig þau vilja sjá starfið, leitað eftir hugmyndum starfsmanna og samtal átt við stjórnendur annarra frístundaheimila í Tjörninni. Einnig var leitað til foreldra og þeir hvattir til að koma tillögum um verkefni eða bótum á starfinu til forstöðumanna sem gætu nýst í þessari vinnu.

Menntastefna Reykjavíkurborgar:

Við störfum í anda menntastefnu Reykjavíkurborgar en meginmarkmið hennar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. Grundvallarþættir stefnunnar eru fimm, sjá nánar hér að neðan:

1. Félagsfærni:

Með félagsfærni er átt við hæfnina til að eiga árangursrík samskipti við aðra og viljann til hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag. Starfið í frístundaheimilunum er í eðli sínu þjálfun í eflingu félagsfærni og markvisst er unnið með félagsfærni í gegnum félagsfærnileiki, samvinnuverkefni og vináttuþjálfun, ásamt því sem börnunum er leiðbeint um samskipti í leik og við lausn ágreinings. Við veitum börnum fjölbreyttan vettvang til þess að tjá skoðanir sínar, leggjum áherslu á að þau þjálfist í að tjá skoðanir sínar, læti að hlusta á skoðanir annarra og virða þær. Börnum er leiðbeint um hvernig leysa má friðsamlega úr ágreiningsmálum og þeim veitt leiðsögn í samskiptum, samvinnu og samkennd og þeim veitt tækifæri til að sýna hug sinn í verki og koma skoðunum sínum á framfæri í fjölbreyttu, lýðræðislegu samstarfi.

2. Sjálfsmynd:

Sterk sjálfsmynd barna og trú á eigin getu er einhver besti grunnur sem hægt er að veita barni út í lífið. Sjálfsefling felur í sér að barnið öðlist trú á eigin getu og að það læri að þekkja styrkleika sína og veikleika. Við leggjum áherslu á að kenna börnunum sjálfsaga og að efla með sér þrautseigju og seiglu. Skýr og sterk sjálfsmynd hjálpar barninu að taka sjálfstæðar, ábyrgar ákvarðanir, takast á við mótlæti, læra að leysa ágreining friðsamlega og lifa í sátt við aðra. Sjálfsstjórn og samskiptahæfni eru nátengd og hafa áhrif á sjálfstraust barna, líðan, námsárangur og almennt árangur í lífinu. Við leggjum á það  ríka áherslu að efla börnin og styðja í því að verða sterkir, sjálfbjarga einstaklingar, en það gerum við m.a. með því að þjálfa þau í því að taka sjálfstæðar ákvarðanir, að ögra þeim og kenna þeim að standa með sjálfum sér, að hjálpa þeim að þekkja sig sjálf og tilfinningar sínar, hjálpa þeim að átta sig á hvað þau vilja og opna hug þeirra fyrir hugmyndum og fólki. Við veitum þeim jákvæða hvatningu til að koma eigin hugmyndum í framkvæmd, en einnig hjálpum við þeim að bjarga sér í hversdeginum, svo sem með því að hjálpa þeim að læra á nærumhverfi sitt, læra á klukku og að passa tímann sinn, læra að gera sér einfaldan mat svo þau eigi auðveldara með að sjá um sig sjálf þegar þau eru vaxin upp úr frístundaheimilinu o.s.frv.

3. Læsi:

Með læsi er átt við þá hæfni að geta lesið, skilið, túlkað og unnið á gagnrýninn hátt með ritað mál, orð, tölur, myndir og tákn. Í víðtækri merkingu vísar hugtakið einnig til læsis á ólíka miðla, umhverfi, hegðun og aðstæður. Læsi er í eðli sínu félagslegt fyrirbæri og hefst með máluppeldi barna við fæðingu. Við vinnum með að efla þekking og skilningur barna á samfélagi sínu og umhverfi, eflum með þeim miðlalæsi, menningarlæsi og svo almennt ritmálslæsi með fjölbreyttum verkefnum, svo dæmi séu tekin um hvernig unnið er með læsi í frístundaheimilunum okkar en góð læsisfærni á íslensku er lykill að þekkingaröflun og skilningi á umhverfi og samfélagi.

4. Sköpun:

Í frístundaheimilunum er lögð rík áhersla að vinna sköpun og skapandi viðfangsefnum og því bjóðum við ávallt upp á fjölbreytt úrval af viðfangsefnum sem stuðla að sköpun og skapandi hugsun. Fjölbreytni er í skapandi viðfangsefnum, þeim er gert jafn hátt undir höfði og öðrum verkefnum og áhersla er á að börnin hafi gott aðgengi að skapandi efnivið þar sem þau hafa val um að vinna eftir fjölbreyttum leiðum. Auk þess tökum við þátt í listviðburðum eins og barnamenningarhátíð og heimsækjum reglulega söfn og aðrar menningarstofnanir. Við erum dugleg við að nota opinn efnivið og flétta tækninni inn í starfið okkar þannig að krökkum gefist færi á að fá sem flesta snertifleti við verk-, tækni- og listnám. Við leggjum áherslu á skapandi verkefni, hvort sem er í stuttum smiðjum eða lengri klúbbum og reynum að flétta saman skapandi vinnu og verklegri vinnu þar sem börnin þjálfast í meðferð áhalda, s.s. með skartgripagerð, tálgun, ljósmyndum o.s.frv

5. Heilbrigði:

Undir heilbrigði falla meðal annars lífs- og neysluvenjur, líkamleg færni, kynheilbrigði og andleg og félagsleg vellíðan. Í hnotskurn má segja að sá einstaklingur sé heilbrigður sem hefur tileinkað sér heilbrigðan lífsstíl og öðlast hæfni til að standa vörð um eigið heilbrigði. Vellíðan barns í daglegu lífi leggur grunninn að virkri þátttöku, aukinni færni og árangri í skóla- og frístundastarfi. Unnið er að því að skapa umræður um heilbrigði í víðum skilningi, t.d. vellíðan, margbreytileika, svefn og hollar lífs- og matarvenjur. Við störfum eftir gátlista skóla- og frístundasviðs um heilsueflandi frístundastarf og styðjum þannig að heildrænt heilbrigði barnanna og hjálpum þeim að leggja góðan grunn að heilbrigðum lífsstíl.

Leiðarljósin okkar:

Tvö leiðarljós vísa okkur veginn við að ná markmiðum menntastefnunnar. Hið fyrra er „barnið sem virkur þátttakandi og hið síðara er „fagmennska og samstarf í öndvegi“.

Barnið sem virkur þátttakandi:

Uppeldi og menntun barna og unglinga er samfélagslegt verkefni og á sér stað bæði með formlegum og óformlegum hætti. Í skóla- og frístundastarfi er virkni barna og lýðræðisleg þátttaka í leik og starfi mikilvægt leiðarljós. Veita þarf börnum viðeigandi stuðning og byggja á styrkleikum þeirra og bakgrunni svo að þau geti haft áhrif á nám sitt, líðan og umhverfi. Menntastefnan byggir á grunnstefjum barnasáttmálans um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess til þess að búa það undir að lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, gagnkvæmrar virðingar, mannréttinda og vinsemdar. Menntastefnan myndar umgjörð um menntun sem byggir á farsælu skóla- og frístundastarfi í borginni en tekur um leið framtíðinni opnum örmum og veitir nýrri tækni, þekkingu, hugmyndum og fjölbreytileika farveg. Við vinnum út frá hugmyndafræðinni um virkt barnalýðræði þar sem við leitum fjölbreyttra leiða til að fá fram sjónarmið og raddir barnanna og notum við til þess fjölbreyttar leiðir. Eitt af því sem við gerum er að hafa hugmyndakassa / Ipad þar sem þau geta sett hugmyndir og tillögur til starfsmanna hvenær sem þeim dettur í hug og úr þeim er unnið með því að hafa lýðræðislegar kosningar fyrir öll börn.

Fagmennska og samstarf í öndvegi:

Í frístundaheimilinu Undralandi starfar framsækið starfsfólk sem rýnir eigin starfsaðferðir, tileinkar sér nýja starfshætti og vinnur saman að sameiginlegum markmiðum. Hlutverk starfsfólks er að koma til móts við þarfir barna og stuðla að alhliða þroska þeirra ásamt því að búa þau undir virka þátttöku í fjölmenningar- og fjölþjóðlegu lýðræðissamfélagi. Í þessu samhengi skiptir miklu að virkja áhuga og ástríðu allra barna en það hefur bein áhrif á árangur þeirra. Til þess að það takist þarf að styðja faglegt frumkvæði starfsfólks, veita því rík tækifæri til starfsþróunar og markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi. Starfsfólkið setur metnað sinn í það að húsnæði og aðstaða veiti fullnægjandi umgjörð um starfið og að starfið stuðli að heilbrigði, þroska og vellíðan barna og starfsmanna.

Foreldrasamstarf:

Fjölskyldur barna í frístundahemilinu eru mikilvægir samstarfsaðilar okkar og leggjum við mikla áherslu á að eigi eiga í góðu við þá, tökum vel í ábendingar, hvetjum til samstarfs og finnum leiðir sem taka mið af ólíkum þörfum, menningu og reynslu barna og foreldra. Í því skyni að eiga í góðu samstarfi við foreldra leggjum við áherslu á gott upplýsingaflæði, við erum með virkar Facebook-síður sem veita góða innsýn inn í daglegt starf okkar, við erum með foreldraviðburði og opin hús að lágmarki einu sinni á önn, við bjóðum upp á einstaklingsmiðuð foreldraviðtöl að hausti og að vori (nóvember og mars) og nýjum foreldrum í frístundaheimilinu er boðið á kynningu í september. Auk þess hafa foreldrar greiðan aðgang að stjórnendum frístundaheimilisins á morgnana svo dæmi séu tekin um þær fjölbreyttu leiðir sem við notumst við til að eiga í góðum foreldrasamskiptum.


Dagskrá skólaárið 2021-2022

Ágúst
– fyrstu kynni við börn og foreldra og kynning á starfinu.

Eftir fyrstu tvær vikur vetrarstarfsins ættu starfsmenn að þekkja öll börn með nafni.

Fyrstu tvær vikurnar þarf að leggja áherslu á gott upplýsingaflæði til foreldra, einkum og sér í lagi foreldra barna sem eru að byrja í Undralandi. Hefðbundin dagskrá og áhersluþættir í starfinu eiga að liggja fyrir. Þá er ekki síður mikilvægt að starfsmenn Undralands gefi sér tíma til að staldra aðeins við og spjalla við foreldra sem eru að sækja börnin sín, svo góð kynni myndist.

Á samverustundum er lögð áhersla á gleði, vináttu og samheldni. Styrkja verður þá tilfinningu barnanna að Undraland sé þeirra staður. Við förum yfir öryggisreglur með börnunum, t.d. að ekki megi fara út af skólalóð og hvernig valkerfi Undralands virkar.

Einnig verður lögð áhersla á að þau börn sem voru áður í Undralandi séu ánægð með að vera komin aftur.

Helstu dagsetningar

3. ágúst: Sumarfrístund hefst aftur eftir sumarlokun.

19. ágúst: Síðasti dagur sumarfrístundar.

20. ágúst: Starfsdagur frístundaheimila Tjarnarinnar – lokað í Undralandi.

23. ágúst: Skólasetning Grandaskóla – lokað í Undralandi.

24. ágúst: Fyrsti dagur vetrarfrístundar fyrir börn í 2. bekk.

25. ágúst: Fyrsti dagur vetrarfrístundar fyrir börn í 1. bekk.

 

September

– klúbba- og smiðjustarf og formleg foreldrakynning.

Þegar starf Undralands er komið í fastar skorður hefst klúbba- og smiðjustarf í Undralandi.

Í september er öllum foreldrum boðið á kynningu á starfsemi Undralands.

Í september er óskað eftir samstarfi við foreldrafélag skólans.

Helstu dagsetningar

20. – 24. september: Heilsuvika Tjarnarinnar. Þetta er fyrsta þemavikan af mörgum. Í Heilsuviku er bæði líkamleg og andleg heilsa í hávegum höfð.

23. september: Heill dagur í Undralandi vegna starfsdags kennara í Grandaskóla. Skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag ef fólk vill nýta sér þjónustuna. Skráning fer fram í gegnum http://vala.is og lýkur á miðnætti þriðjudaginn 10. september.

 

Október
– Siðfræðikennsla, Vísinda- og tilraunavika og vetrarfrí.

Í Undralandi fer fram siðfræðikennsla á samverustundum. Börnunum eru kynnt hugtök og tæki sem geta hjálpað þeim við að rækta mannkosti sína. Í október er börnunum kennt hugtakið „dyggð“ og að leysa félagslegar uppákomur með því að spyrja: Hvað myndi besta útgáfan af mér gera?

Helstu dagsetningar:

8. október: Heill dagur í Undralandi vegna foreldraviðtala í Grandaskóla. Skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag ef fólk vill nýta sér þjónustuna. Skráning fer fram í gegnum http://vala.is og lýkur á miðnætti þriðjudaginn 28. september.

18. – 22. október: Vísinda- og tilraunavika. Í Vísinda- og tilraunaviku keppast frístundaheimilin við að gera allskonar tilraunir og fá vísindamenn í heimsókn.

22., 25. og 26. október: Haustfrí/Vetrarleyfi. Lokað í Undralandi líkt og í Grandaskóla

22. október: Fjölskylduviðburður í haustfríi/vetrarleyfi á vegum Tjarnarinnar.

30. október: Hrekkjavaka.

Foreldrar fá boð um foreldraviðtal í nóvember.

Regnbogavottunarferli Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur hefst.

 

Nóvember
– Siðfræðikennsla, Barnasáttmálavika og undirbúningur fyrir jólamarkað.

Siðfræðikennsla heldur áfram og í nóvember er áhersla lögð á hugtakið „umhyggja“ og mikilvægi þess að rækta góð sambönd við fólk. Börnin læra að spyrja sig: Hvað gæti ég gert til að styrkja sambönd mín við aðra?

Undirbúningur fyrir jólamarkað í desember hefst.

Helstu dagsetningar:

10. nóvember: Heill dagur í Undralandi vegna starfsdags kennara í Grandaskóla. Skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag. Skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag ef fólk vill nýta sér þjónustuna. Skráning fer fram í gegnum http://vala.is og lýkur á miðnætti þriðjudaginn 2. nóvember.

15. – 19. nóvember: Réttindavika barna. Vikan haldin í tilefni afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og til að minna börn á réttindi sín.

19. nóvember: Réttindaganga 2. bekkjar. Börn í 2. bekk ganga fylktu liði á fund fyrirmanna í lögreglufylgd. Þau minna þá og aðra borgarbúa á að börn eigi lögvarinn rétt.

Foreldraviðtöl í Undralandi.

 

Desember
– Siðfræðikennsla, jólamarkaður og jólafrí.

Í siðfræðikennslu desembermánaðar verður lögð áhersla á hugtakið „samfélag“. Börn læra hvað það þýðir að búa í samfélagi og um mikilvægi þess að allir fylgi sömu reglum. Þau læra að spyrja sig: Breytist hegðun okkar þegar enginn sér til?

Helstu dagsetningar:

9. desember: Jólamarkaður fjölskyldunnar í Tjörninni. Allur ágóði rennur óskiptur til hjálparstarfs SOS barnaþorpanna. Fyrir söfnunarféð greiðir frístundaheimilið árgjöld fyrir styrktarbörn frístundaheimilanna í Tjörninni. Styrktarbarn Undralands heitir Delina og við munum kynna ykkur fyrir henni fljótlega.

17. desember: Jólaskemmtun í Grandaskóla. Undraland opnar á hefðbundnum tíma 13:40 og geta börnin komið í Undraland ef þau vilja.

24., 25., 26. og 31. desember: Jólafrí. Lokað í Undralandi.

20., 21., 22., 23., 27., 28, 29. og 30. desember: Heilir í dagar í Undralandi vegna jólaleyfis. Skrá þarf sérstaklega fyrir þessa daga ef fólk vill nýta sér þjónustuna. Skráning fer fram í gegnum http://vala.is og lýkur á miðnætti þriðjudaginn 7. desember.

 

 Janúar
– Siðfræðikennsla, foreldraviðtöl, vika fjölbreytileikans og nýir klúbbar/smiðjur.

Hugtak siðfræðikennslu í janúar er „hamingja“. Börnin læra að spyrja sig: Hvað gæti ég gert til að auka hamingju sem flestra?

Klúbbastarf hefst að nýju og nýir klúbbar verða kynntir til sögunnar. Eftir jólafrí fer starfið rólega af stað og áhersla lögð á að allir samræmist rútínu Undralands á ný.

Helstu dagsetningar:

3. janúar: Heill dagur í Undralandi vegna starfsdags kennara í Grandaskóla. Skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag ef fólk vill nýta sér þjónustuna. Skráning fer fram í gegnum http://vala.is og lýkur á miðnætti þriðjudaginn 7. desember, líkt og fyrir daga í jólaleyfi.

17. – 21. janúar: Vika fjölbreytileikans. Í viku fjölbreytileikans velta börnin í frístundaheimilinu fyrir sér fjölbreytileikanum með því að skoða menningarmun og vinna ýmis verkefni til að víkka sjóndeildarhring sinn.

 

Febrúar
– Siðfræðikennsla, miðlalæsisvika, vetrarfrí og skráning vegna næsta skólaárs.

Í febrúar verður farið í hugtakið „frelsi“ í siðfræðikennslu Undralands. Börnin læra að spyrja sig: Hvað gæti ég gert til að hámarka frelsi sem flestra?

Helstu dagsetningar:

8. febrúar: Heill dagur í Undralandi vegna foreldraviðtala í Grandaskóla. Skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag ef fólk vill nýta sér þjónustuna. Skráning fer fram í gegnum http://vala.is og lýkur á miðnætti þriðjudaginn 1. febrúar.

17. og 18. Vetrarleyfi. Lokað í Undralandi líkt og í Grandaskóla.

17. febrúar – Fjölskylduviðburður í vetrarleyfi í boði Tjarnarinnar.

21. – 25. febrúar: Miðlalæsisvika. Í því samfélagi sem við lifum í í dag verða börn að vera meðvituð um hvað þau sjá og heyra – og hvaða áhrif það getur haft á þau. Í Miðlalæsisviku er börnunum leiðbeint um miðla og miðlanotkun.

Skráning í frístund vegna skólaársins 2021-2022 er í enda febrúar.

Foreldrar fá boð um foreldraviðtal í mars.


Mars
– Siðfræðikennsla og Umhverfisvika.

Siðfræðikennsla heldur áfram og verður áherslan á hugtakið „skylda“ með því að fjalla um mikilvægi þess að vera fyrirmynd. Börnin læra að spyrja sig: Hvað myndi ég gera ef ég þyrfti að vera öðrum til fyrirmyndar?

Þemavika marsmánuðar er Umhverfisvika.

Helstu dagsetningar:

2. mars: Öskudagur – skertur dagur í skóla, Undraland tekur á móti börnunum fyrr.

21. mars – 25. mars: Umhverfisvika. Í Umhverfisviku leggjum við áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og loftslagsvísindi, temjum okkur betri venjur og hugum að því hvernig við getum gert umhverfið betra.

Foreldraviðtöl í Undralandi.

 

Apríl
– Páskafrí og Barnamenningarhátíð.

Barnamenningarhátíð er haldin hátíðleg í Reykjavíkurborg í byrjun apríl. Undraland tekur þátt í hátíðarhöldunum, fer á viðburði og/eða býður heim.

Í apríl er einnig kynning á sumarstarfi Undralands og skráning í sumarfrístund hefst.

Helstu dagsetningar:

5. – 10. apríl: Barnamenningarhátíð

11., 12. og 13. apríl: Heilir dagar í Undralandi vegna páskaleyfis í Grandaskóla. Skrá þarf sérstaklega fyrir þessa daga ef fólk vill nýta sér þjónustuna. Skráning fer fram í gegnum http://vala.is og lýkur á miðnætti þriðjudaginn 5. apríl.

19. apríl: Heill dagur í Undralandi vegna starfsdags kennara í Grandaskóla. Skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag ef fólk vill nýta sér þjónustuna. Skráning fer fram í gegnum http://vala.is og lýkur á miðnætti þriðjudaginn 5. apríl eins og fyrir daga í páskaleyfi.

21. apríl: Sumardagurinn fyrsti. Lokað í Undralandi.

Skráning hefst í sumarstarf Undralands.

 

Maí
– Útivera og kassabílarallý.

Í maí er lögð mikil áhersla á útiveru í Undralandi. Farið verður í hjóla- og fjöruferðir og útidagar verða á blíðviðrisdögum.

Hið árlega kassabílarallý frístundaheimilanna fer fram á Ingólfstorgi 27. maí. Börnin æfa snerpu og leikni í margar vikur fyrir viðburðinn, föndra búninga og eru hluti af árlegu kassabílarallýsmyndbandi. 2. bekkur tekur þátt í rallýinu en 1. bekkur skipar stuðningsliðið.

Helstu dagsetningar:

12. maí: Starfsdagur – Lokað í Undralandi.

26. maí: Uppstigningadagur. Lokað í Undralandi.

27. maí: Kassabílarallý 1. og 2. bekkjar á Ingólfstorgi.

 

Júní
– Vetrarstarfi lýkur og sumarfrístund hefst.

Skólaslit eru 8. júní. Þann dag taka við skipulagsdagar í Undralandi. Sumarfrístund hefst mánudaginn 13. júní. Skrá þarf sérstaklega í sumarfrístund Undralands 2022.

6. júní: Annar í hvítasunnu. Lokað í Undralandi.

8. júní: Skólaslit. Lokað í Undralandi.

9. júní: Sumarfrístund hefst.

17. júní: Þjóðhátíðardagur Íslendinga. Lokað í Undralandi.

 

 Júlí
– Sumarlokun í Undralandi.

Undraland er lokað frá 4. – 29. júlí. Sumarstarf hefst aftur þriðjudaginn 2. ágúst.

Síðan er í vinnslu.

Í Starfsskrá frístundamiðstöðva kemur fram að það er hlutverk frístundaheimila að efla og styrkja heilsu og velferð barna, hlúa að verndandi þáttum og lágmarka áhrif áhættuþátta í umhverfinu. Áhersla er lögð á að að vinna með sjálfsmynd, umhyggju, félagsfærni, virkni og þátttöku. Í forvarnar- og lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar og Viðmiðum og vísbendingum fyrir innra og ytra mat á gæðum frístundastarfs er einnig lögð áhersla á að börn á aldrinum 6-9 ára upplifi öryggi og stuðning sem gerir þeim kleift að tileinka sér heilbrigða og uppbyggilega lífshætti. Markviss heilsueflandi vinna styður við þessar áherslur.

Gátlisti fyrir 2021-2022: í vinnslu.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt