Miðlalæsi barna

Í frístundaheimilum Tjarnarinnar er unnið með miðlalæsi. Með því er átt að börnin eru hvött og þeim kennt að nýta gagnrýna hugsun fyrir það sem þau sjá og heyra. Nútímasamfélag er gríðarlega flókið og upplýsingar berast allstaðar að. Það er því mikilvægt að virkja börn í að vera gagnrýnin á þá miðla sem þau nota – og þá miðla sem er otað að þeim, markaðsöfl sem herja á þau á hverjum degi. Börn verða betri í miðlalæsi seinna á lífsleiðinni ef þau byrja að tileinka sér gagnrýna hugsun í tengslum við upplýsingar fyrr.

Hver er ábyrgð okkar í frístundastarfi?

Fyrst og fremst eru starfsmenn fyrirmyndir, en líka erum við áhrifavaldar. Við erum með börnunum marga tíma á dag og því er mikilvægt að við hjálpum þeim með að efla sína gagnrýnu hugsun, hvort sem það er í kringum tæki og tól sem við notum, efni eða félagsfærni – sem þau horfa oft á í miðlum og spegla sig í.

En hvernig er hægt að valdefla börn og kenna þeim gagnrýna hugsun?

Það er ekki endilega mikilvægt að segja hvað sé rétt eða rangt, heldur skiptast á hugmyndum og spyrja spurninga. Þannig eflist gagnrýnin hugsun – með samtalinu. Er það til dæmis tilviljun að persóna í kvikmynd sé sýnilega að drekka Coca Cola eða nota iPad? Er það tilviljun að kex í hillunum úti í búð sé í augnhæð barna? Afhverju var Skari svona vondur við Múfasa? Er raunverulegt að teiknimyndapersóna fái makleg málagjöld? Svona spurningar og vangaveltur efla börnin í að vera gagnrýnin á það sem þau sjá og heyra.

Erum við að kenna þeim að miðlar séu BARA slæmir?

Alls ekki. Það eru kostir og gallar við alla miðla, en það er sér í lagi mikilvægt fyrir börnin að þeim sé bent á gallana svo þau séu í stakk búin til að takast á við flókinn heim slíkra miðla í framtíðinni. Við kennum þeim að nýta sér miðla rétt, með þekkinguna að vopni.

Klúbbastarf – hugmyndir til að byrja að efla miðlalæsi meðal barna

Auglýsingaklúbbur
Börnin horfa á myndbönd um hvernig matarauglýsingar eru gerðar og hvernig þær geta gefið skakka mynd af raunveruleikanum. Starfsmaður stýrir umræðum hvers vegna auglýsingar passa ekki alltaf við raunverulegar vörur sem við fáum í hendurnar, ásamt því að kynna duldar auglýsingar (e. product placement) fyrir börnunum. Starfsmaður sýnir börnum hvernig matvörubúðir eru markvisst settar upp til þess að fá okkur til að kaupa meira og börn til að pressa á foreldra.

Spurningar til umræðu:
– Afhverju vill fólk skekkja raunveruleikann? Eru peningar í spilinu?
– Hafið þið óskað eftir að fá eitthvað dót/nammi sem olli svo vonbrigðum? (Flestir með góðar sögur hér).

Myndbönd sem hægt er skoða:

Einnig er hægt að leyfa börnunum að búa til auglýsingar með því að nota blaðaúrklippur, teikna myndir, skrifa texta eða nota iPad.

Neytendavaktin

Neytendavaktin er lítill hópur barna sem fer í einhvers konar leiðangur sem skilar ákveðinni niðurstöðu, rannsókn á einhverju sérstöku eftir að hafa fengið fræðslu. Til dæmis geta börn talið hversu mörg merki (e.logo) eru í nærumhverfi sínu og athugað hversu mikið þau eru fyrir augunum á þeim á hverjum degi. Einnig geta börnin gert úttekt á skjátímareglum barna í frístundaheimilinu og fleiri atriðum er varða miðlanotkun. Skemmtileg ferð út fyrir frístundaheimilið væri að fara í fylgd starfsmanns í matvörubúð, þar sem börnin taka myndir og gera skýrslu um uppsetningu búðarinnar eftir að hafa kynnt sér hvernig þær eru settar upp til að fólk kaupi meira.

Fréttaklúbbur/falsfréttaklúbbur

Í fréttaklúbb geta börnin búið til sín eigin fréttablöð og/eða falsfréttablöð með því að teikna myndir eða nota blaðaúrklippur og skrifa texta. Einnig geta börnin tekið upp fréttatíma/falsfréttatíma með iPad, þar sem þau búa til fréttir og taka viðtöl.

Logo-ratleikur eða spurningakeppni

Börnin leita að myndum af vörumerkjum sem starfsmenn hafa hengt upp á skólalóðinni (eða þau þurfa að leita að merkjum sem eru nú þegar til staðar). Stig fást fyrir merki og aukastig fyrir að nefna þau. Í kjölfarið eru umræður um hvers vegna börnin þekkja sum vörumerki betur en önnur, t.d. er gott að skoða íþróttabúninga barnanna eða merki sem tengjast nærumhverfinu. Það má einnig nota þetta verkefni sem spurningakeppni, t.d. Kahoot!

Samfélagsmiðlaklúbbur

Þessi klúbbur hentar betur fyrir börn í 3. og 4. bekk. Börnin horfa á myndband um mátt Photoshop og Facetune (eða annarra forrita sem geta gert breytingar á fólki og hlutum) og starfsmaður sýnir þeim hvernig þessi forrit geta breytt því sem maður sér á samfélagsmiðlum. Starfsmaður leiðir umræður um erfiða hlið samfélagsmiðla, eins og neteinelti og þá staðreynd að fólk geti villt á sér heimildir á netinu til að ná ýmsu fram.

Annað, fyrir foreldra og starfsmenn

Við mælum með síðu sem heitir Common Sense Media. Á síðunni er hægt að slá inn í leit allskonar miðlum og efni sem börn eru að neyta; t.d. bíómyndatitlum og sjónvarpsþáttum, bókatitlum, tölvuleikjum, tónlist og smáforritum og fá upp niðurstöður um hvað þetta inniheldur og fyrir hvaða aldur efnið er ætlað. Þið sjáið líka athugasemdir frá foreldrum og börnum. Síðan er einnig til sem smáforrit sem gott er að hafa í símanum til að geta gripið í.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt