Hjartarými

Hjartarými Undralands er gangurinn sem gengið er inn á þegar komið er inn úr forstofunni Rekagrandamegin í Grandaskóla. Í Hjartarýminu er valtaflan okkar og þar er starfsmaður allan daginn, svokallaður valstjóri. Valstjórinn er andlit Undralands og hefur yfirsýn yfir hvar börnin eru í frístundaheimilinu. Hann hjálpar börnunum að velja, hjálpar foreldrum þegar þeir koma að sækja börnin, sendir börn á æfingar og heim. Valstjórinn hjálpar einnig börnum sem þurfa aðhlynningu eða annað yfir daginn. Valstjórinn svarar í síma Undralands á þeim tíma sem börnin dvelja í Undralandi.

Hjartarýmið er ekki valsvæði, en þar er margt um að vera; börn að velja hvað þau ætla að gera, foreldrar að sækja börn, börn að fá plástur, börn að fá sér nasl, börn og foreldrar að leita að óskilamunum, o.s.frv. Í hjartarýminu geyma börnin fötin sín og töskur og stimpla sig út þegar þau fara heim.

Íþróttasalur:

Undraland fær dagleg afnot af íþróttasal Grandaskóla og er hann í boði alla daga. Við leggjum mikið upp úr hreyfingu og að sem flestir fái að hreyfa sig einhvern tíma dagsins. Í íþróttasalnum fara fram skipulagðir leikir en þó er stundum frjáls leikur þar sem allskonar dót er dregið fram og salurinn settur upp sem sirkus. Í íþróttasalnum eru líka haldin danspartý og hinn geysivinsæli Stjörnustríðs-leikur.

Perlur:

Mikil perlumenning er í Undralandi og er perlað í matsal skólans. Leitast er við að hafa leiðbeiningar sem henta getu hvers og eins og erum við í Undralandi dugleg að perla það nýjasta og tæknilegasta. Við straujum perl á nær hverjum degi og því geta börnin tekið sköpunarverk sín með sér heim. Börnin geta einnig geymt perl sem verið er að vinna í, allavega í nokkra daga.

Listir:

Listir er heiti listastofunnar okkar. Hún er staðsett í húsinu okkar úti, aaaalveg úti í enda. Á hverjum degi er hægt að teikna og föndra þar inni, en reglulega er skartgripa-, vinabanda- og teiknimyndasögugerð, málning, origami, puttaprjón og önnur skapandi vinna þar unnin. Í Listum eru allir með merkta skúffu (tveir og tveir saman) þar sem er hægt að geyma teikningar og annað föndur.

Í Listum er einnig samverustundarými fyrir 2. bekk, klúbbaherbergi og fótboltaspilið okkar góða.

 

Útivist:

Undraland nýtir lóð Grandaskóla til útivistar, ásamt lóðina fyrir utan hús Undralands. Starfsmaður ákveður það svæði sem er í boði hverju sinni. Fótboltavöllur, rólur, klifurgrindur, vegasölt og annað útidót er á svæðinu en einnig tekur Undraland út smádót eins og krítar, húlahringi, kubb, rassaþotur og bolta til að fullkomna útiveruna.

Frjáls leikur er hafður að leiðarljósi í útivistinni en oft farið í skipulagða útileiki eins og Eina krónu og feluleik. Börn geta hvenær sem er dagsins skipt úr valinu sínu yfir í útivist og þurfa því ekki að bíða eftir skiptitíma.

Spil:

Spilastofan okkar er inni í Grandaskóla, en skólinn notar stofuna einnig fyrir kennslu á morgnanna.

Undraland á fjöldamörg skemmtileg spil fyrir börn. Sumir dagar eru tileinkaðir sérstökum spilum þar sem starfsmaður kennir spilið og spilar með börnunum, en það er auðvitað engin skylda að taka þátt í því spili og geta börnin spilað það sem þau vilja.

Hægt er að spila allt frá minnisspilum upp í ævintýraspil eða spil sem fela í sér leikræna tjáningu. Einnig er vinsælt að spila handspil eins og Ólsen, ólsen og veiðimann. Spilin eru aðgengileg og spilaleiðbeiningar til fyrir hvert spil.

Við erum svo með geggjaða taflmottu í spilastofunni, með stórum taflmönnum og leiðbeiningum um mannganginn og sniðugar úrlausnir.

Bókahorn:

Bókahornið er kósýhorn þar sem hægt er að hagræða sér með góða bók eða Andrés-blað og eiga notalega stund. Við viljum að bókahornið sé hvíldarstöð Undralands, ef maður þarf að kúpla sig algjörlega út úr áreiti. Kósý sófi, púðar, teppi og heyrnahlífar eru í bókahorninu svo að manni líði sem best.

Einu sinni í viku er leikjatölva í boði, á föstudögum. Þá skiptast börnin á að spila skemmtilega leiki sem henta þeirra aldri. Á tyllidögum er í boði að horfa á bíómynd í bókahorninu og svo sýnum við stundum landsleiki Íslands ef þeir lenda á Undralandstíma og börnin hafa áhuga.

Í bókahorninu eru líka samverustundir (mikilvægir fundir) fyrir 1. bekk.

Legó, kubbar og Sylvanian:

Þessi tvö svæði eru róleg svæði sem fáir leika á í einu. Þau eru samliggjandi við bókahornið.

Legó og kubbar: Við eigum kynstrin öll af Legó-kubbum til að byggja allskonar háhýsi, skip, lestar, fjölskyldugarða og fleira. Kubbar eru vinsælir og skemmtilegir kubbar þar sem hægt er að nota ímyndunaraflið eða leiðbeiningar til að gera skemmtilega skúlptúra. Við eigum einnig kúlubraut úr seglakubbum sem er nánast notuð daglega. Í þessu horni eru líka litlir trékubbar og við setjum bílabrautina okkar á þetta svæði af og til.

Sylvanian og dýr: Í Sylvanian eru lítil dúkkuhús og litlir Sylvanian-bangsar, en einnig eru þar dýr og fleira smádót sem hentar vel fyrir rólegan leik.

Leynileikhús:

Leynileikhúsið er nýtt svæði hjá okkur í Undralandi. Svæðið er ætlað fyrir ímyndunarleik og þar inni er lítill kastali (smáhýsi), leiksvið og búningar, eldhús, búð, matardót, stórir holukubbar og allskonar púðar og tuskudýr. Svæðið er mjög vinsælt og mikil eftirspurn eftir að fá að vera þar.

Svæðið er í stöðugri þróun þessa dagana, þar munu t.d. koma á næstunni almennileg leiktjöld fyrir leiksviðið og fleira skemmtilegt – svo þetta verði nú allt eins og í alvöru leikhúsi.

Þetta eru okkar helstu svæði. Ath. að svæðin geta breyst eftir þörfum og húsnæði frístundaheimilisins.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt