Undraland er réttindafrístund UNICEF. Grandaskóli er einnig réttindaskóli. Réttindaskóli og réttindafrístund er heildræn nálgun og samstarfsverkefni á milli skóla og frístundar.

Undraland hlaut viðurkenningu og vottun sem réttindafrístund á 30 ára afmæli Barnasáttmálans, þann 20. nóvember 2019.

En hvað er réttindafrístund?

Skoðaðu það í myndbandinu hér að neðan:

Lestu þér til um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með því að ýta hér.

Til að fá viðurkenninguna þurfti Undraland að fara í gegnum ýmis skref og úttektir. Frístundaheimilið mun svo fara í gegnum endurmat Unicef með reglulegu millibili.

Frístundaheimilið þarf að uppfylla eftirfarandi forsendur til að skilgreinast sem réttindafrístund:

Þekkingu á réttindum barna (42. grein Barnasáttmálans).

Barna- og ungmennalýðræði (12. grein Barnasáttmálans).

Eldmóður fyrir réttindum barna (2., 4., 12. og 29. grein Barnasáttmálans).

Forsendur Barnasáttmálans sem hluti af daglegu starfi frístundaheimilsins (2., 4., 12 og 29. grein Barnasáttmálans).

Samstarf (2., 3. og 6. grein Barnasáttmálans).

Frístundaheimilið leggur áherslu á og vinnur helst eftir fjórum greinum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þær eru eftirfarandi:

2. grein: Jafnræði — bann við mismunun.

Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

3. grein: Það sem barninu er fyrir bestu.

Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

6. grein: Réttur til lífs og þroska.

Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.

12.grein: Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif.

Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

En hvað er gert Undralandi?

Víðsvegar um frístundaheimilið hanga uppi greinar úr barnasáttmálanum, ásamt því að barnasáttmálinn er sýnilegur í frístundaheimilinu. Greinarnar eru tengdar við þá hluti sem um ræðir svo börnin muni betur eftir þeim; t.d. greinar um heilsuvernd hjá þar sem plástrarnir eru, hollan mat þar sem matseðillinn er og greinar um að segja sína skoðun þar sem samverustundir eru haldnar. Börnin í 1. bekk eru nær oftast að kynnast Barnasáttmálanum í fyrsta skipti og því mikilvægt að hafa hann sýnilegan og tengja við daglegt starf.

Í Undralandi eru reglulegar samverustundir þar sem börnin fá tækifæri til að ræða réttindi sín og barnasáttmálann. Í upphafi skólaárs er útskýrt fyrir þeim gildi samverustunda og mikilvægi þess að rödd þeirra heyrist.

Að hausti endurskoða börnin í sameiningu sáttmála á svæðum Undralands, taka út og bæta við. Breytingar eru gerðar með sjónarmið barnanna að leiðarljósi.

Myndrænt skipulag: Börnin standa sig misjafnlega vel þegar kemur að lestri, tungumáli og fleiri og því reynir Undraland að nýta sér myndrænt skipulag sem mest.

Frístundalæsi: Undraland tileinkar sér frístundalæsi: http://fristundalaesi.reykjavik.is/um-fristundalaesi/

Barnalýðræði: mikið er hugað að vali barnanna og rétti þeirra til að haga frítíma sínum eins og þau vilja innan veggja frístundaheimilsins.

Frístundaheimilin í Vesturbænum; Undraland, Selið, Skýjaborgir og Frostheimar – ásamt frístundaheimilum í Miðborg og Hlíðum hafa í mörg ár verið með þemaviku í nóvember þar sem börnin eru frædd um Barnasáttmálann og réttindi sín. Síðustu þrjú ár hefur 2. bekkur farið í réttindagöngu í enda Barnasáttmálavikunnar þar sem börnin krefjast réttinda fyrir öll börn. Þau föndra skilti, skrifa bréf til yfirvalda og arka svo niður Skólavörðustíg í kröfugöngu. Borgarstjóri, forsætisráðherra og forseti borgarstjórnar eru meðal þeirra sem hafa tekið við kröfu frá börnunum, kröfu um að hugsa meira um börn og réttindi þeirra.

Börnin í Undralandi geta sett hugmyndir af því sem þau vilja gera í frístundaheimilinu í hugmyndakassa. Hugmyndakassinn er staðsettur í Listastofunni þar sem börnin eiga greiðan aðgang að pappír og skriffærum til að skrá hugmyndir sínar. Reglulega er kassinn tæmdur og gerlegum hugmyndum hrint í framkvæmd.

Í Undralandi hafa verið gerð myndlistarverkefni sem taka á fjölbreytileika barna í frístundaheimilinu og fagna honum.

Ýttu hér til að skoða aðgerðaráætlun Undralands vegna innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í frístundaheimilið.

Ýttu hér til að skoða heimasíðu Réttindaskóla UNICEF.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt