Hér má finna gjaldskrá frístundaheimila.
Skýjaborgir og Vinátta
Skýjaborgir er nú vináttufrístund Barnaheils en verkefnið Vinátta er á vegum Barnaheils þar sem áhersla er lögð á vináttu og forvarnir gegn einelti.
Vinátta byggist á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem mikilvægt er að séu samofin öðru starfi þeirra skóla sem vinna með efnið. Auk þess byggir Vinátta á raunhæfum verkefnum fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Þátttaka allra í þessu forvarnarverkefni er grundvöllur þess að vel takist til. Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi við vinnu og í samskiptum innan skólasamfélagsins. Hugmyndafræðin endurspeglast í eftirtöldum fjórum gildum:
Umburðarlyndi
Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.
Virðing
Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.
Umhyggja
Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
Hugrekki
Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.
Vinátta felst í því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Lögð er sérstök áhersla á að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti og hvetja þau til að bregðast við því.
Einelti
Samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem Vinátta byggist á er einelti félagslegt, menningarlegt og samskiptalegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi. Einelti er slæmt mynstur eða samskipti sem þróast í aðstæðum og umhverfi þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum og viðmið um hvað sé „rétt“ eða „rangt“ eru ósveigjanleg. Einelti þrífst ekki síst í umhverfi sem börn hafa ekkert val um að vera í og komast ekki burt úr, svo sem skóla eða bekkjardeild.
Einelti eða samskiptamynstur sem getur leitt til eineltis eða útilokunar má rekja allt niður í leikskóla. Því er mikilvægt að strax í leikskóla sé byggt upp umhverfi og andrúmsloft þar sem einelti fær ekki að þróast.
Það sem einkennir barnahópa þar sem einelti nær ekki að þrífast er hár þröskuldur umburðarlyndis. Þar er samkennd, börnin njóta virðingar og viðurkenningar. Þau finna sér sinn eðlilega sess í hópnum, sama hver þau eru, hvernig þau líta út, hvaða hlutverki þau gegna og hvers þau eru megnug. Gildi margbreytileikans er virt og umburðarlyndi fyrir því að hópurinn er samsettur úr mismunandi einstaklingum með mismunandi einkenni og mismunandi styrkleika. Ekki er gert ráð fyrir að einstaklingar breyti einkennum sínum eða útliti til að falla í hópinn. Þar er jákvæður og góður skólabragur.
Í Vináttu er lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir, samkennd, umhyggju, vináttu og vellíðan og efnið er því forvarnarverkefni gegn einelti. Vinátta nýtist þannig í því hlutverki skóla að stuðla að almennri menntun barna með áherslu á félags- og tilfinningaþroska og hæfni þeirra til að takast á við áskoranir daglegs lífs.
Foreldrahandbók Skýjaborga 2021-2022
Um Skýjaborgir, skipulag og verkferlar
Við leggjum mikið upp úr því að þjónusta barnið ykkar sem best, þar sem það er statt hverju sinni. Við leggjum okkur fram við að vera í góðu samstarfi við foreldra og aðra sem koma að degi barnsins, svo sem skóla, íþróttafélög og þjónustumiðstöð. Við bjóðum öllum foreldrum upp á formlegt foreldraviðtal einu sinni á ári, en auk þess er forstöðumaður við teymis- og skilafundi um einstök börn óski foreldrar eftir því. Foreldrar geta nálgast forstöðumann flesta morgna milli kl. 9:00 og 12:00 í síma 411-5730 eða 695-5053. Einnig er hægt að senda póst á skyjaborgir@rvkfri.is
Miðað er við 14 börn á hvern almennan starfsmann í Skýjaborgum. Auk almennra starfsmanna eru stuðningsstarfsmenn sem sinna ákveðnum börnum. Þessi viðmið um barngildi á starfsmann ákvarða hvernig og hvenær hægt er að taka börn inn á haustin og ef fjöldi umsókna fer fram yfir fjölda starfsmanna sem tekist hefur að ráða getur myndast tímabundinn biðlisti. Börn í 1. bekk og börn með sérstakar aðstæður eru í forgangi þegar sótt er um dvöl í frístundaheimili skv. ákvörðun borgarráðs. Því ráðleggjum við foreldrum að skila inn umsókn fyrir barnið eins fljótt og kostur er, en ávallt er opnað fyrir umsóknir fyrir næsta skólaár í febrúar.
Starfsfólk
Starfsmannahópurinn samanstendur af forstöðumanni í fullu starfi, aðstoðarforstöðumanni í fullu starfi og starfsmönnum í hlutastarfi, sem eru í allt frá 20-50% starfshlutfalli.
Forstöðukona Skýjaborga er Laufey Hrönn Jónsdóttir og aðstoðarforstöðukona er Hildur Hlíf Hilmarsdóttir. Daglegur vinnutími þeirra er frá 9:00 – 17:00. Flesta morgna er hægt að ná tali af þeim á skrifstofunni eða ná í þær í síma 411-5730 eða 695-5053. Sérstaklega er mælt með því að foreldrar hafi samband fyrir hádegi ef áríðandi mál koma upp. Mjög erfitt getur reynst fyrir starfsfólk að taka á móti fyrirspurnum á milli 13:20 – 17:00, þar sem nóg er um að vera með börnunum. Við biðjum ykkur því að halda símhringingum í lágmarki eftir 13:20. Ef foreldrar vilja panta viðtalstíma hjá forstöðukonu er það sjálfsagt. Best er þá að hafa samband tímanlega og panta tíma.
Opnunartími:
Frístundaheimilið opnar um leið og venjulegum skóladegi lýkur og er opið til kl. 17:00. Börnin eru sótt í skólastofur af starfsmönnum sem fara með þau beint í hressingu sem er í matsalnum. Eftir hressingu taka börnin dótið sitt og fara í Skýjaborgir þar sem þau velja sér valsvæði fyrir daginn. Eins og fyrr segir þá lokar frístundin kl 17:00 og biðjum við foreldra um að virða þann tíma. Mikilvægt er að láta starfsmann vita þegar barnið er sótt og ,,stimpla” það út með því að rétta starfsmanni myndina sem er á valspjaldi.
Gjald:
Gjaldið er ávallt innheimt eftir hvern mánuð. Ef foreldrar vilja afskrá barnið úr frístundaheimilinu er mikilvægt að gera það fyrir 15. hvers mánaðar og tekur uppsögnin gildi mánaðarmótin á eftir. Hægt er að skrá barnið í hlutadvöl í Skýjaborgir og tekur gjaldið mið af nýtingunni. Nánar má sjá gjaldskrána
Systkinaafsláttur
Ef tvö systkini eða fleiri eru í vistun hjá frístundaheimilum Borgarinnar er veittur 75% afsláttur vegna annars barns en 100% vegna þriðja og fjórða barns af frístundagjaldi, skilyrði er að systkinin hafi sama lögheimili og fjölskyldunúmer í þjóðskrá. Foreldrar greiða fullt fæðisgjald fyrir öll börnin.
Veittur er systkinaafsláttur milli dagforeldra, leikskóla og frístundaheimila/frístundaklúbba þannig að 50% afsláttur er af gjöldum á frístundaheimili/frístundaklúbb ef barnið á systkini í leikskóla eða hjá dagforeldri. Ekki er veittur afsláttur af gjaldi fyrir síðdegishressingu.
Ef þjónusta er nýtt kl. 8.00-13.40 á foreldradögum og starfsdögum skóla eða í jóla- og páskafríum þarf að greiða fyrir það kr. 1.960 á dag. Á ofangreindum dögum geta börnin eftir sem áður dvalið á frístundaheimilinu frá kl. 13.40-17.00 þar sem búið er að greiða fyrir þá vistun. Óskað er eftir skráningu á þessa daga sérstaklega á hverjum stað fyrir sig. Ekki er veittur systkinaafsláttur af viðbótarvistun á þessum dögum.
Dagskrá:
Börnin fá síðdegishressingu fljótlega eftir að skólinn er búinn. Dagskráin er samansett af fjölbreyttum og skemmtilegum tómstundum og leitast er eftir því að hafa dagskránna þannig uppbyggða að í bland sé boðið upp á skipulagt starf og frjálsan leik. Skipulögðum dagskráliðum lýkur að mestu í kringum 16:00. Eftir þann tíma er útivera, ávaxtastund, tiltekt og róleg stund.
Starfsmenn Skýjaborga byrja daginn í heimakrók barnanna, þar eru börnin lesin upp, börnin fá að vita hvað er í vali og hvað sé í boði í hressingu. Eftir heimakrók er farið í matsalinn en þó ekki allir í einu, ákveðið kerfi er notað svo bekkirnir skiptast á að vera fyrstir í matsal og þá fyrstir í val þann daginn. Þeir sem eru síðastir í val eru lengur í heimakrók í sínum stofum og nota tímann í spjall og leiki.
13:40 – 14:15 Heimakrókur – matsalur og val.
14:15 – 14:45 Útivera (fer eftir veðri)
14:45 – 16:00 (16:15) Valstund
16:00 – 16:30 Tiltekt, útivera og ávaxtastund
16:30 – 17:00 Endum daginn á 1. hæð Skýjaborga
Aðstaðan
Listasmiðja: Í kjallara er góð aðstaða fyrir skapandi starf. Þar er málað, föndrað, teiknað og önnur listtengd vinna er unnin.
1.Hæð: Valtafla Skýjaborga er staðsett á 1 hæð og þangað koma foreldrar til að athuga hvar barnið er staðsett. Mikilvægt að koma þangað og láta vita þegar barnið er sótt. Þessi hæð er líka mjög vinsæl valstöð, þar er í boði að lita, lesa bækur og skapandi leiki.
2.Hæð: Á þessari hæð er leiklistinni gert hátt undir höfði. Það er að finna leiksvið og fjöldan allan af búningum. Einnig er hægt að leika með Sylvaníu – dót, bangsa og heilmilis/kaffihúsa/búða dót. Á annari hæð er einnig Legohorn sem er mjög vinsæl stöð.
Spilaborgir/skóli: Við höfum aðgang að skólastofu út í skóla og er hún notuð fyrir spil og púsl. Á þessu svæði er hámarksfjöldi 12 börn og er því oftast mjög róleg og hugguleg stemming, börnin spila í rólegheitum og oftast er sett góð tónlist.
Íþróttasalur: Í íþróttasal fara fram skipulagðir leikir og íþróttaklúbbar. Einstaka sinnum er frjáls leikur í salnum. Einnig fara þar fram stærri viðburðir okkar eins og böll, öskudagsskemmtun, sýningar o.fl.
Matreiðslustofa: Skýjaborgir hefur aðgang að matreiðslustofunni í Vesturbæjarskóla. Í matreiðslu er börnunum leiðbeint um hvernig megi baka og elda á einfaldan máta, ásamt hreinlæti og öryggisverkferlum í matargerð.
Útivist: Útivist er alltaf í boði, þ.e. börnin geta alltaf skipt af valsvæði sínu og farið í útivist.
Heilir dagar:
Á þeim dögum þegar hefðbundið skólahald liggur niðri, svo sem á starfsdögum kennara, í jóla- og páskafríum og öðrum frídögum í skólanum, er boðið upp á þjónustu allan daginn í frístundaheimilinu. Það er hins vegar ekki opið í Skýjaborgum í vetrarfríum skólans. Á heilum dögum er opið í Skýjaborgum frá 8:00 – 17:00. Greiða þarf aukalega fyrir þjónustu fyrir hádegi þessa daga, en sótt er um viðbótarvistun á heilum dögum í gegnum Rafræna Reykjavík. Skráning fyrir heila daga er auglýst í tölvupósti með góðum fyrirvara. Rík áhersla er lögð á að foreldrar láti vita hvort barn mæti eða mæti ekki þá daga sem skipulagt skólastarf liggur niðri, óháð því hvort nýta á viðbótarvistun að morgni eða fast pláss eftir hádegi svo best gangi að manna vaktirnar og skipuleggja dagskrá. Athygli er vakin á því að ekki er tekið við óskráðum börnum á heilum dögum. Mikilvægt er að börnin komi klædd eftir veðri og með nægilega mikið nesti (oftast morgun- og hádegisnesti). Á heilum dögum förum við oft með börnin í ferðir en erum alltaf í húsi á foreldraviðtalsdögum.
Hægt er að skoða hvaða dagar eru heilir skólaárið 2021-2022 í dagskrá á heimasíðu Skýjaborga.
Heimasíða, samfélagsmiðlar og tölvupóstur
Upplýsingaflæði til foreldra er okkur mjög mikilvægt. Við höldum úti heimasíðu og sendum reglulega pósta með fréttum af starfinu, sem og aðra tilfallandi tölvupósta til foreldra. Mjög mikilvægt er að foreldrar gefi upp rétt netfang við umsókn í Rafrænni Reykjavík og ágætt ef foreldrar skoða það póstfang reglulega. Hægt er að senda póst á netfangið Skyjaborgir@rvkfri.is. Slóðin á heimasíðuna okkar er https://tjornin.is/fristundaheimili-6-9-ara/forsida-skyjaborgir/ og er þar að finna upplýsingar um starfsfólk, innri starfsemi, myndir úr starfinu, fréttir og margt fleira. Heimasíðan er uppfærð reglulega. Við notum einnig facebook síðu Skýjaborga mjög mikið og þar koma inn vikulega upplýsingar og myndir sem gaman er að fylgjast með. Slóðin á þá síðu er
https://www.facebook.com/groups/427000612795762
Tilkynningar til frístundaheimilisins: Forfallatilkynningar eru alfarið á ábyrgð foreldra. Börn eiga ekki að tilkynna okkur að þau séu ekki á leið í Skýjaborgir eða séu að fara með vinum sínum heim, það er alfarið á ábyrgð foreldra að láta okkur vita. Þetta er hægt að gera með því að senda tölvupóst, sms eða hringja í frístundaheimilið. Nauðsynlegt er að tilkynna forföll barns svo við séum ekki áhyggjufull um börn sem eiga ekki að mæta til okkar. Ekki er þó nauðsynlegt að tilkynna um veikindi ef þau eru tilkynnt til Vesturbæjarskóla að morgni. Forstöðukona fer og nær í þær upplýsingar á hverjum degi.
Frístundir: Foreldrar bera ábyrgð að láta okkur vita ef barn á að labba sjálft í aðrar frístundir (t.d. á æfingar), ef breytingar eru á frístundum barna eða þau fá leyfi til að sleppa æfingu.
Börnin fá ekki leyfi til að hringja heim úr Skýjaborgum til þess að spyrja um leyfi til að leika með öðrum börnum eftir frístund. Við biðjum foreldra að sýna þessari reglu skilning og hvetjum til þess að slíkar heimsóknir séu skipulagðar daginn áður og við látin vita með símtali eða tölvupósti.
Útbúnaður barna: Mikilvægt er að börn séu klædd eftir veðri þegar þau eru í Skýjaborgum. Það eru undantekningartilvik ef við förum ekki út. Ef barn hefur verið veikt og á að vera inni er mikilvægt að við fáum þær upplýsingar frá foreldrum. Að öllu jafna miðum við einn dag í inniveru eftir veikindi.
Séreinkenni fyrir frístundaheimili Tjarnarinnar:
Heilsuvika: Í þessari viku er heilsa (bæði líkamleg og andleg) í hávegum höfð. Við hlökkum til að þróa þessa þemaviku og móta með börnunum. Vellíðunnar- og hreyfivika er í september.
Vísindavika: á hverju hausti eru vísindi í brennidepli í eina viku í frístundaheimilum Tjarnarinnar. Frístundaheimilin keppast við að gera allskonar tilraunir og fá vísindamenn í heimsókn. Vísindavikan er í október.
Barnasáttmála- og réttindagönguvika: þetta er þemavika sem haldin er á hverju ári í kringum afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við einbeitum okkur sérstaklega að réttindum barna í þessari viku og vinnum skemmtileg og fræðandi verkefni. 2. bekkur heldur síðan í réttindagöngu niður í miðbæ og krefst bóta fyrir öll börn. Barnasáttmála- og réttindagönguvika er í nóvember.
Jólamarkaður: á hverju ári er haldinn jólamarkaður í Tjörninni til styrktar góðu málefni. Vikurnar á undan hafa börnin í frístundaheimilunum föndrað og útbúið alls kyns vörur og varning sem þau selja foreldrum og velunnurum til styrktar því málefni sem valið hefur verið. Rauði krossinn og UNICEF hafa t.d. verið styrkt á þennan hátt. Jólamarkaður er í byrjun desember.
Miðlalæsisvika: í því samfélagi sem við lifum í dag verða börn að vera meðvituð um hvað þau sjá og heyra – og hvaða áhrif það getur haft á þau. Í fjölmiðlalæsisviku er börnunum leiðbeint um fjölmiðla og fjölmiðlanotkun. Fjölmiðlalæsisvika er í febrúar.
Vika fjölbreytileikans: í viku fjölbreytileikans velta börnin í frístundaheimilunum fyrir sér fjölbreytileikanum með því að skoða menningarmun og vinna ýmis verkefni til að stækka sjóndeildarhring sinn. Flölbreytileikavikan er í mars.
Barnamenningarhátíð: Þessi hátíð er á vegum Reykjavíkurborgar og tökum við í Skýjaborgum virkan þátt. Þá sýna börnin listaverk, leikrit, tónlistaratriði eða það sem þeim dettur í hug og hafa verið að vinna að. Barnamenningarhátíðin er haldin í apríl.
Frístundakort
Markmið og tilgangur Frístundakortsins er að öll börn og unglingar í Reykjavík frá 6 – 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Styrkurinn er 50.000 krónur á barn á ári en ekki er um beingreiðslur til forráðamanna að ræða, heldur hafa þeir rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum. Bent er á að ekki er mögulegt að flytja styrkinn milli ára. Börn sem verða sex ára á árinu eiga rétt á styrk frá 1. janúar það ár og út árið sem þau eru 18. Einstaklingar sem orðnir eru 18 ára þurfa að skrá sig sjálfir inn í Rafræna Reykjavík til þess að ráðstafa styrknum.
Með von um gott samstarf,
Laufey Hrönn Jónsdóttir – Forstöðukona
S: 411-5730/6909202
Hildur Hlíf Hilmarsdóttir – Aðstoðarforstöðukona
hildur.hlif.hilmarsdóttir@rvkfri.is
S: 411-5730/896-8271