Umbótaáætlun

                                                                       

                                                                         

Aðgerðaráætlun Eldflaugarinnar 2022-2023

 

Inngangur:

Frístundaheimilið Eldflaugin heyrir undir frístundamiðstöðina Tjörnina sem þjónustar Vesturbæ, Miðborg og Hlíðar. Tjörnin heyrir undir skóla- og frístundasvið Reykjavíkur.

Eldflaugin þjónustar börn á aldrinum 6-9 ára í Hlíðaskóla og er staðsett í skólanum.

Forstöðukona er Unnur Tómasdóttir og aðstoðarforstöðukonur eru Iða Þorradóttir og Rúna Kristín Stefánsdóttir. Starfsfólk Eldflaugarinnar er með fjölbreytta menntun og reynslu sem er til þess fallin að auðga og efla starfið með börnunum.

 

Hlutverk og gildi Tjarnarinnar:

Frístundamiðstöðin Tjörnin hefur einsett sér að vera framsækið forystuafl í skóla- og frístundastarfi. Rík áhersla er lögð á að börnum og unglingum í hverfinu standi til boða frístundastarf sem hefur uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska og til þess að ná því vinnum við með virka þátttöku, reynslunám, lýðræði og mannréttindi. Við hugum einnig sérstaklega að því að virkja einstaklinga sem þurfa sérstaka hvatningu og stuðning vegna fötlunar eða félagslegrar stöðu. Starf á vegum frístundamiðstöðva er í eðli sínu forvarnarstarf þar sem unnið er með viðhorf og atferli barna og unglinga í átt til heilbrigðs lífsstíls og virkni í samfélaginu. Við höfum sett okkur ákveðin gildi sem leggja grunn að öllu starfi á okkar vegum, en þau eru:

Framsækni – gott getur alltaf orðið betra!

Umhyggja –  okkur er ekki sama!

Fjölbreytileiki –  með opnum hug opnast dyr!

 

Um aðgerðaráætlunina:

Aðgerðaráætlun þessi er unnin sem liður í starfsætlun Tjarnarinnar, en starfsáætlanir frístundamiðstöðva skóla- og frístundasviðs eru unnar út frá Menntastefnu Reykjavíkurborgar og Stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025. Einnig er tekið mið af lögum og reglugerðum, upplýsingum um þátttöku í starfinu, niðurstöðum kannana um starfið og rannsóknum á stöðu barna og unglinga í hverfinu. Starfsáætlunin tekur gildi 1. september 2022 og gildir til 31. ágúst 2023. Starfsáætlun Tjarnarinnar í heild sinni má nálgast á heimasíðu Tjarnarinnar www.tjornin.is, en þar má finna nánari upplýsingar um markmið og leiðir í starfinu.

Aðgerðaráætlun hverrar starfseiningar er sett upp í svipuðu formi og skóladagatal til að foreldrar og forráðamenn geti fylgst með dagskránni hverju sinni, en vakin er athygli á því að aðgerðaráætlunin er lifandi skjal sem getur tekið breytingum yfir starfsárið.

Hér aftast munum við lista upp helstu verkefnin og viðburðina sem eru í hverjum mánuði starfsársins fyrir sig. Þess ber að gæta að þessi listi er ekki tæmandi eða bindandi, enda er starfið okkar lifandi vettvangur sem tekur mið af þörfum þess barna- og starfsmannahóps sem hjá okkur er. Hann á þó að gefa góða mynd af því hvernig við vinnum og hvernig við setjum framangreind markmið og áhersluþætti í framkvæmd í raunverulegum verkefnum.

Ávallt er boðið upp á útiveru, hreyfingu og frjálsan leik í bland við fjölbreyttar smiðjur, klúbba og þematengd verkefni. Með þessu móti náum við góðu jafnvægi á milli þess að leyfa börnunum að njóta sín með félögum sínum og sinna sínum hugðarefnum þegar formlegri dagskrá skólans sleppir og  að fá útrás fyrir hreyfiþörf sína, náttúrulega forvitni og skapandi hugsun þannig að þau fái sem mest út úr veru sinni í frístundaheimilinu. Áhersla er lögð á það að styðja við lestrarnám barnanna með óformlegum hætti, svo sem með því að hafa gott aðgengi að bókum í frístundaheimilinu og með því að hafa ritmálið sýnilegt í umhverfinu, m.a. með því að merkja helstu hluti og rými í starfinu með bæði orðmynd og mynd. Þetta hjálpar einnig til við að styðja við og ýta undir markvisst íslenskunám hjá börnum sem ekki eru með íslensku að móðurmáli. Við erum einnig dugleg að nýta okkur bókasöfnin í hverfinu og erum í góðu samstarfi við skólabókasafnið og nýtum okkur verkfæri frístundalæsis.

 

Nálgun við gerð aðgerðaráætlunar:

Við gerð þessarar aðgerðaráætlunar var leitast við að hafa víðtækt samráð við sem flesta hagsmunaaðila til þess að geta sem best mætt þörfum þeirra og óskum um þjónustu. Meðal annars var leitað eftir hugmyndum barnanna um það hvernig þau vilja sjá starfið sem við gerum reglulega með því að hafa hugmyndakassa og barnaráð. Einnig voru foreldrar hvattir til að koma með hugmyndir og tekið var tillit til þeirra þar sem hægt var, sem og niðurstöðum úr foreldrakönnun sem send var út í vetur. Síðast en ekki síst voru starfsmenn virkir í vinnunni og koma með ýmsar góðar tillögur að verkefnum þar sem við náum að koma framangreindum markmiðum og áherslum í aldursviðeigandi og áhugahvetjandi verkefni fyrir börnin.

 

Menntastefnan:

Við störfum í anda menntastefnu Reykjavíkurborgar en meginmarkmið hennar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. Grundvallarþættir stefnunnar eru fimm, sjá nánar hér að neðan:

  1. Félagsfærni:

Með félagsfærni er átt við hæfnina til að eiga árangursrík samskipti við aðra og viljann til hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag Starfið í frístundaheimilunum er í eðli sínu þjálfun í eflingu félagsfærni og markvisst er unnið með félagsfærni í gegnum félagsfærnileiki, samvinnuverkefni og vináttuþjálfun, ásamt því sem börnunum er leiðbeint um samskipti í leik og við lausn ágreinings. Við veitum börnum fjölbreyttan vettvang til þess að tjá skoðanir sínar, leggjum áherslu á að þau þjálfist í að tjá skoðanir sínar, læti að hlusta á skoðanir annarra og virða þær. Börnum er leiðbeint um hvernig leysa má friðsamlega úr ágreiningsmálum og þeim veitt leiðsögn í samskiptum, samvinnu og samkennd og þeim veitt tækifæri til að sýna hug sinn í verki og koma skoðunum sínum á framfæri í fjölbreyttu, lýðræðislegu samstarfi.

  1. Sjálfsmynd:

Sterk sjálfsmynd barna og trú á eigin getu er einhver besti grunnur sem hægt er að veita barni út í lífið.

Sjálfsefling felur í sér að barnið öðlist trú á eigin getu og að það læri að þekkja styrkleika sína og veikleika. Við leggjum áherslu á að kenna börnunum sjálfsaga og að efla með sér þrautseigju og seiglu. Skýr og sterk sjálfsmynd hjálpar barninu að taka sjálfstæðar, ábyrgar ákvarðanir, takast á við mótlæti, læra að leysa ágreining friðsamlega og lifa í sátt við aðra. Sjálfsstjórn og samskiptahæfni eru nátengd og hafa áhrif á sjálfstraust barna, líðan, námsárangur og almennt árangur í lífinu. Við leggjum á það  ríka áherslu að efla börnin og styðja í því að verða sterkir, sjálfbjarga einstaklingar, en það gerum við m.a. með því að þjálfa þau í því að taka sjálfstæðar ákvarðanir, að ögra þeim og kenna þeim að standa með sjálfum sér, að hjálpa þeim að þekkja sig sjálf og tilfinningar sínar, hjálpa þeim að átta sig á hvað þau vilja og opna hug þeirra fyrir hugmyndum og fólki. Við veitum þeim jákvæða hvatningu til að koma eigin hugmyndum í framkvæmd, en einnig hjálpum við þeim að bjarga sér í hversdeginum, svo sem með því að hjálpa þeim að læra á nærumhverfi sitt, læra á klukku og að passa tímann sinn, læra að gera sér einfaldan mat svo þau eigi auðveldara með að sjá um sig sjálf þegar þau eru vaxin upp úr frístundaheimilinu o.s.frv.

  1. Læsi:

Með læsi er átt við þá hæfni að geta lesið, skilið, túlkað og unnið á gagnrýninn hátt með ritað mál, orð, tölur, myndir og tákn. Í víðtækri merkingu vísar hugtakið einnig til læsis á ólíka miðla, umhverfi, hegðun og aðstæður. Læsi er í eðli sínu félagslegt fyrirbæri og hefst með máluppeldi barna við fæðingu. Við vinnum með að efla þekking og skilningur barna á samfélagi sínu og umhverfi, eflum með þeim miðlalæsi, menningarlæsi og svo almennt ritmálslæsi með fjölbreyttum verkefnum, svo dæmi séu tekin um hvernig unnið er með læsi í frístundaheimilunum okkar en góð læsisfærni á íslensku er lykill að þekkingaröflun og skilningi á umhverfi og samfélagi.

  1. Sköpun:

Í frístundaheimilunum er lögð rík áhersla að vinna sköpun og skapandi viðfangsefnum og því bjóðum við ávallt upp á fjölbreytt úrval af viðfangsefnum sem stuðla að sköpun og skapandi hugsun. Fjölbreytni er í skapandi viðfangsefnum, þeim er gert jafn hátt undir höfði og öðrum verkefnum og áhersla er á að börnin hafi gott aðgengi að skapandi efnivið þar sem þau hafa val um að vinna eftir fjölbreyttum leiðum. Auk þess tökum við þátt í listviðburðum eins og barnamenningarhátíð og heimsækjum reglulega söfn og aðrar menningarstofnanir. Við erum dugleg við að nota opinn efnivið og flétta tækninni inn í starfið okkar þannig að krökkum gefist færi á að fá sem flesta snertifleti við verk-, tækni- og listnám. Við leggjum áherslu á skapandi verkefni, hvort sem er í stuttum smiðjum eða lengri klúbbum og reynum að flétta saman skapandi vinnu og verklegri vinnu þar sem börnin þjálfast í meðferð áhalda, s.s. með skartgripagerð, tálgun, ljósmyndum o.s.frv.

  1. Heilbrigði:

Undir heilbrigði falla meðal annars lífs- og neysluvenjur, líkamleg færni, kynheilbrigði og andleg og félagsleg vellíðan. Í hnotskurn má segja að sá einstaklingur sé heilbrigður sem hefur tileinkað sér heilbrigðan lífsstíl og öðlast hæfni til að standa vörð um eigið heilbrigði. Vellíðan barns í daglegu lífi leggur grunninn að virkri þátttöku, aukinni færni og árangri í skóla- og frístundastarfi. Unnið er að því að skapa umræður um heilbrigði í víðum skilningi, t.d. vellíðan, margbreytileika, svefn og hollar lífs- og matarvenjur. Við störfum eftir gátlista skóla- og frístundasviðs um heilsueflandi frístundastarf og styðjum þannig að heildrænt heilbrigði barnanna og hjálpum þeim að leggja góðan grunn að heilbrigðum lífsstíl.

 

Leiðarljósin okkar:

Tvö leiðarljós vísa okkur veginn við að ná markmiðum menntastefnunnar. Hið fyrra er „barnið sem virkur þátttakandi og hið síðara er „fagmennska og samstarf í öndvegi“.

  • Barnið sem virkur þátttakandi:

Uppeldi og menntun barna og unglinga er samfélagslegt verkefni og á sér stað bæði með formlegum og óformlegum hætti. Í skóla- og frístundastarfi er virkni barna og lýðræðisleg þátttaka í leik og starfi mikilvægt leiðarljós. Veita þarf börnum viðeigandi stuðning og byggja á styrkleikum þeirra og bakgrunni svo að þau geti haft áhrif á nám sitt, líðan og umhverfi. Menntastefnan byggir á grunnstefjum barnasáttmálans um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess til þess að búa það undir að lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, gagnkvæmrar virðingar, mannréttinda og vinsemdar. Menntastefnan myndar umgjörð um menntun sem byggir á farsælu skóla- og frístundastarfi í borginni en tekur um leið framtíðinni opnum örmum og veitir nýrri tækni, þekkingu, hugmyndum og fjölbreytileika farveg. Við vinnum út frá hugmyndafræðinni um virkt barnalýðræði þar sem við leitum fjölbreyttra leiða til að fá fram sjónarmið og raddir barnanna og notum við til þess fjölbreyttar leiðir. Eitt af því sem við gerum er að hafa hugmyndakassa þar sem þau geta sett hugmyndir hvenær sem þeim dettur í hug og úr þeim er unnið reglulega á starfsfólksfundum fyrir hugmyndir yngri barnanna en eldri börnin hittast einu sinni í viku (þau sem vilja taka þátt) og fara yfir hugmyndir úr kassanum, bæta við fleiri hugmyndum og setja upp dagskrá, láta starfsfólk hafa innkaupa óskalista og skipuleggja viðburði.

 

  • Fagmennska og samstarf í öndvegi:

Í frístundaheimilinu Eldflauginni starfar framsækið starfsfólk sem rýnir eigin starfsaðferðir, tileinkar sér nýja starfshætti og vinnur saman að sameiginlegum markmiðum. Hlutverk starfsfólks er að koma til móts við þarfir barnanna og stuðla að alhliða þroska þeirra ásamt því að búa þau undir virka þátttöku í fjölmenningar- og fjölþjóðlegu lýðræðissamfélagi. Í þessu samhengi skiptir miklu að virkja áhuga og ástríðu allra barna en það hefur bein áhrif á árangur þeirra. Til þess að það takist þarf að styðja faglegt frumkvæði starfsfólks, veita því rík tækifæri til starfsþróunar og markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi. Starfsfólkið setur metnað sinn í það að húsnæði og aðstaða veiti fullnægjandi umgjörð um starfið og að starfið stuðli að heilbrigði, þroska og vellíðan barna og starfsmanna.

Foreldrasamstarf:

Fjölskyldur barna í frístundaheimilinu eru mikilvægir samstarfsaðilar okkar og leggjum við mikla áherslu á að eigi eiga í góðu við þá, tökum vel í ábendingar, hvetjum til samstarfs og finnum leiðir sem taka mið af ólíkum þörfum, menningu og reynslu barna og foreldra. Í því skyni að eiga í góðu samstarfi við foreldra leggjum við áherslu á gott upplýsingaflæði, við erum með virkar Facebooksíðu sem veita góða innsýn inn í daglegt starf okkar, við erum með foreldraviðburði og opin hús að lágmarki einu sinni á önn, við bjóðum upp á einstaklingsmiðuð foreldraviðtöl að hausti og að vori (nóvember og mars) og nýjum foreldrum í frístundaheimilinu er boðið á kynningu í september. Auk þess hafa foreldrar greiðan aðgang að stjórnendum frístundaheimilisins á morgnana svo dæmi séu tekin um þær fjölbreyttu leiðir sem við notumst við til að eiga í góðum foreldrasamskiptum.

 


 

Aðgerðaráætlun Eldflaugarinnar starfsárið 2022-2023:

 

Ágúst

Sumarstarf hefst aftur 5.ágúst – síðasti dagur 18.ágúst

Sendum bækur til 1.bekkjar

19.ágúst   starfsdagur

22.ágúst   starfsdagur/skólasetning

23.ágúst   2.-4.bekkur byrjar

24.ágúst   1.bekkur byrjar

Starfsfólk og börn kynnast hvort öðru og svæðunum

 

September

Hugmyndakassar kynntir fyrir börnunum

Eldflaugin kynnir sig fyrir foreldrafélagi og bekkjarforystufólki

Nýtt starfsfólk fær nýliðafræðslu

1.sept             Skráning fyrir lengda viðveru haustannar hefst

7.sept             Barnaráð hefst

14.sept           Foreldrakynning á Teams (í hádeginu)

19.-23.sept.   Heilsuvika

 

Október

10.-14.okt.   Vísindavika

11.okt           Skráning í lengda viðveru lýkur

18.okt.         Lengd viðvera

19.okt.          Lengd viðvera

20.okt           Starfsdagur, lokað í frístundaheimilinu

21.-25.okt.   Haustleyfi, lokað í frístundaheimilinu

31.okt.              Hrekkjavaka

 

Nóvember

1.- 4.nóv.           Foreldraviðtöl

15.nóv.               Foreldrakaffi

17.nóv.               Starfsdagur, lokað í frístundaheimilinu

14.-18.nóv.        Réttindavika

 

 

 

Desember

8.des.                    Jólamarkaður í Spennistöðinni – til styrktar SOS börnum frístundaheimilanna

21.-23.des.        Lengd viðvera

24.- 26.des.       Jólafrí

27.-30.des.        Lengd viðvera

 

Janúar

2.jan.                  Lengd viðvera

3.jan.                  Skráning fyrir lengda viðveru vorannar hefst

16.-20.jan.         Fjölmenningarvika

 

Febrúar

11.feb.         Dagur íslenska táknmálsins

13.feb.          Lengd viðvera

14.feb.          Lengd viðvera

13.-17.feb.   Miðlalæsisvika

20.feb.         Bolludagur

21.feb.         Sprengidagur

22.feb.         Öskudagur

23.-24.feb.   Vetrarleyfi, lokað í frístundaheimilinu

23.feb.          Fjölskylduviðburður Tjarnarinnar (Barnastarf)

Skráning hefst fyrir næsta skólaár

 

Mars

1.-3. mars     Foreldraviðtöl

29.mars         Foreldrakaffi

27.-31.mars  Umhverfisvika

 

Apríl

3.-5.apríl            Lengd viðvera

6.-10.apríl           Páskafrí

17.-21.apríl         Barnamenningarvika

20.apríl               Sumardagurinn fyrsti

Kynning og skráning í sumarstarf

 

 

 

Maí

8.-12. maí          Fjölbreytileikavika

10.maí                Lengd viðvera

17.maí                Regnbogahlaup

18.maí                Uppstigningadagur

29.maí                Annar í hvítasunnu

 

 

 

Júní

7.júní                  Skólaslit, lokað í Eldflauginni

8.júní                  Starfsdagur, lokað í Eldflauginni

9.júní                     Sumarstarf hefst

 

 

Gátlisti fyrir grunnskóla þar sem er trans barn

✓ Gott er að eiga fund með foreldrum/forráðamönnum og tryggja að allir séu meðvitaðir um stöðu og þarfir barnsins sem og úrræði og fræðslu sem standa til boða.

✓ Mikilvægt er að veita foreldrum/forráðamönnum stuðning og leggja áherslu á styrkleika barnsins og jákvæðar breytingar á því. Einnig má benda þeim á upplýsingar og fræðsluefni um trans börn.

✓ Mikilvægt er að vera vakandi fyrir því að trans börn eru viðkvæmur hópur í samfélaginu og eiga meiri hættu á því að verða fyrir ofbeldi vegna kynvitundar og kyntjáningar sinnar en önnur börn, bæði á heimilum sínum og annars staðar. Ef grunur vaknar um að barnið sé að verða fyrir ofbeldi (t.d. tilfinningalegt, líkamlegt, vanræksla) skal skólinn tilkynna til Barnaverndar.

✓ Gott er að fá fræðslu fyrir starfsfólk um trans börn.

✓ Gott er að fá fræðslu fyrir nemendur um trans börn.

✓ Gott er að halda fund eða senda upplýsingapóst á forráðamenn bekkjarsystkina barnsins til þess að upplýsa og fræða þá um málefni trans fólks og styðja við umræður sem eiga sér stað í skólanum.

✓ Gott er að eiga upplýsingafund með starfsfólki frístundamiðstöðvar ef barnið sækir slíkt.

✓ Mikilvægt er að virða nafnaval nemenda og kynna það fyrir öðrum nemendum og starfsfólki skólans. Ekki eru þó öll trans börn sem velja sér nýtt nafn og sum máta nokkur nöfn.

✓ Mikilvægt er að temja sér notkun á þeim fornöfnum sem barnið kýs (t.d. hann, hún, hán o.s.fr.).

✓ Samkvæmt lögum nr. 80/2019 geta forsjáraðilar óskað eftir breytingu á skráðu kyni og nafni barns hjá Þjóðskrá. Ef það er ótímabært má breyta nafni barnsins (ef það notar valnafn) í Mentor, en það er gert með því að senda póst á radgjafar@infomentor.is. Slíkt þarf að endurtaka í byrjun hvers árs (janúar) til þess að koma í veg fyrir að árleg uppfærsla Mentors færi þjóðskrárnafnið aftur í kerfið.

✓ Útbúðu eyðublöð og aðrar skráningar sem skólinn útbýr sjálfur þannig að forráðamenn og/eða börn geti valið kyn og fornafn við hæfi.

✓ Trans börn eru með fjölbreytta kyntjáningu, rétt eins og sís börn. Ekki gera ráð fyrir ákveðinni hegðun frá nemandanum sem byggjast á kyni hans, t.d. að trans stelpa falli algjörlega að hugmyndum um kvenleika.

✓ Tryggðu að nemandinn sé öruggur í öllum aðstæðum og rýmum skólans. Ef svo er ekki þarf að skoða hvað veldur óörygginu og ráðast í breytingar, hvort sem það snýr að t.d. skipulagi skólans, hegðun starfsfólks /nemenda eða námsefni.

✓ Tryggðu aðgang að kynhlutlausum salernum og skiptiaðstöðu, jafnvel má breyta þeirri aðstöðu sem fyrir er, en leyfðu barninu að velja aðstöðu sem það telur best henta sinni kynvitund.

✓ Kynntu þér hvað tvíhyggjukynjakerfi er og áhrif þess á bæði sís og trans fólk.

✓ Mikilvægt er að fjalla um fjölbreytileika kyns og trans fólk við samnemendur barnsins. Nefna þarf breytingar á stöðu barnsins, valnafn þess og fornöfn.

✓ Mikilvægt er að setja sér stefnu um núllþol gagnvart neikvæðri og niðurlægjandi notkun á hugtökum sem tengjast trans (og öðru hinsegin) fólki. Ræddu það við nemendur, áhrif slíkrar orðanotkunar og legðu áherslu á hvernig nemendur geti stutt við bakið á þeim sem verða fyrir slíku.

✓ Forðastu að kynja nemendahópa: Talaðu frekar um nemendur, börn og krakka en um stelpur og stráka.

Eldflaugin vinnur eftir verklaginu Opinskátt um ofbeldi.

Við hengjum myndir á veggina, tökum umræðuna við börnin og erum alltaf tilbúin að hlusta.

Hér má sjá frekari upplýsingar um verkefnið.

Eldflaugin vinnur samkvæmt verkferlum um Vinsamlegt samfélag varðandi forvarnir og inngrip gegn einelti.

Eineltisáætlun Tjarnarinnar

Allir starfsstaðir frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar starfa samkvæmt verklagi í
eineltismálum sem varð til í samstarfi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs sem gengur
undir nafninu Vinsamlegt samfélag. Þar er stefnt að því að framkoma allra einkennist af
virðingu, samkennd og ábyrgð og er einelti ekki liðið í vinsamlegu samfélagi. Ef þörf krefur er
tekið skipulega á því í samræmi við eineltisáætlun frístundamiðstöðvarinnar og stefnu
borgarinnar.
Mikilvægt er að samræma eins og kostur er viðhorf og skilaboð allra starfsmanna um
framkomu og samskipti til barnanna í borginni og efla það starf leik -og grunnskóla og
frístundamiðstöðva sem stuðlar að vinsamlegu samfélagi meðal barna og starfsmanna.
Frístundamiðstöðin Tjörnin vinnur samkvæmt verklagi Vöndu Sigurgeirsdóttur um
vináttuþjálfun, sem miðar að því að efla félagsfærni og vináttufærni barna, finna sérstaklega
þau börn sem þurfa stuðning og aðstoð og þjálfa upp hjá þeim jákvæð hegðunarmynstur.
Öflugasta forvörnin gegn einelti felst í því að börn læri með skipulögðum hætti að vera
saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru höfð að leiðarljósi.

 

Hvað er einelti?

Einelti felur í sér að einstaklingur er tekinn fyrir af öðrum einstakling eða hópi. Einelti er
ofbeldi sem getur haft varanleg áhrif á sálarlíf fórnarlambsins. Einelti felur í sér að
einstaklingur er tekinn fyrir af einum eða hópi með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi
ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, félagslegri höfnun eða
markvissri útskúfun.
Einelti getur einnig birst í samskipum í vefmiðlum. Það er hlutverk fullorðna fólksins að sjá til
þess að börn umgangist vefinn af ábyrgð.
Frístundamiðstöðin er með eineltisáætlun sem allar starfstöðvar starfa eftir til að fyrirbyggja
einelti og uppræta það þegar grunur er um slíkt. Foreldrar skulu alltaf taka vísbendingar eða
upplýsingar um einelti alvarlega og setja sig í samband við forstöðumann á viðkomandi
starfsstöð til að hefja samstarf um að uppræta það.
Í stefnu og starfsáætlun skóla- og frístundasviðs segir að leita skuli allra leiða til að börnum í
þjónustu þess líði vel og að unnið sé markvisst að því í samræmi við forvarnarstefnu
borgarinnar að byggja upp jákvæða sjálfsmynd og þjálfa félagsfærni og samskipti barnanna.
Tekið er fram að einelti og ofbeldi sé ekki liðið.

 

Áhrif eineltis á börn

Einelti er ofbeldi sem getur haft varanleg áhrif á sálarlíf þolandans. Ef barn er lagt í einelti
líður ekki langur tími áður en því fer að líða illa, verður óttaslegið, öryggislaust, einmana og á
varðbergi gagnvart félögum. Sjálfstraustið hverfur, barnið dregur sig í hlé og verður jafnvel
veikt án sýnilegra sjúkdóma.
Langvarandi einelti veldur streitu sem leitt getur til alvarlegra vandamála eins og óæskilegrar
hegðunar, lystarleysis og þunglyndis.

 

Hvað geta foreldrar gert ef barn þeirra verður fyrir einelti?

Foreldrar skulu alltaf taka vísbendingar eða upplýsingar um einelti alvarlega. Nauðsynlegt er
að ræða við barnið, hlusta vel á það og sýna því umhyggju og skilning.
Foreldrar þurfa því næst að ræða við forstöðumann viðkomandi starfseiningar, sem aflar
nauðsynlegra gagna til að varpa ljósi á staðreyndir. Sé eineltið staðfest gerir starfseiningin
viðbragðsáætlun til að takast á við eineltið samkvæmt verkferli Tjarnarinnar í eineltismálum
sem finna má aftast í þessu skjali, en hann er byggður á gátlista eineltisáætlana. Komi upp
eineltismál á skólaárinu er málið unnið í þverfaglegu eineltisteymi sem starfar innan hvers
skóla Komi upp eineltismál í sumarstarfinu er málið alfarið unnið af starfmönnum
Tjarnarinnar með hlutaðeigandi aðilum með möguleikann á stuðningi frá þjónustumiðstöð.
Samkvæmt nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 og
aðgerðaráætlun um forvarnir meðal barna og ungmenna skal skv. aðgerð C.1. vera starfandi
forvarnarteymi í hverjum grunnskóla sem tengiliðir frístundaheimila og félagsmiðstöðva sitja
ásamt fleiri sem koma að málefnum barnsins innan og utan skóla.

 

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar starfar ráðgjafi foreldra og skóla. Hann vinnur
að úrlausn eineltismála í samstarfi við foreldra og stofnanir Reykjavíkurborgar. Hægt er að
hafa samband í síma 4 11 11 11.
Foreldrar eða skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða
sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að aðkomu sérfræðiþjónustu.

Tenglar

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar má finna upplýsingar um verkefnið Vinsamlegt samfélag og
gátlista sem starfshópur um verkefnið setti fram en gátlistinn er leiðbeinandi fyrir þá sem
vinna að gerð eineltisáætlana á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. Hann samræmir
áætlun um forvarnir, inngrip og eftirfylgd í eineltismálum í öllum hverfum borgarinnar.
Gátlistinn var unninn í víðtæku samráði starfsfólks skóla- og frístundasviðs, fulltrúa foreldra
og þjónustumiðstöðva.

Einelti í skóla- og frístundastarfi: http://reykjavik.is/thjonusta/einelti-i-skola-ogfristundastarfi
Leiðbeiningar til starfsfólks opni barn sig um mögulega kynferðisleg áreitni eða
ofbeldi: https://menntastefna.is/tool/leidbeiningar-til-starfsfolks-kynferdisleg-areitni-edaofbeldi/

 

Verkferill Tjarnarinnar í eineltismálum.

Verklag starfsstaða frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar í eineltismálum byggir á þríþættri nálgun;
forvörnum, inngripi og eftirfylgd. Með forvörnum er lögð áhersla á að börn og ungmenni þjálfist í
lýðræðislegum vinnubrögðum og samskiptum sem einkennast af virðingu, samkennd og ábyrgð. Allir
starfsstaðir starfa eftir leiðarljósum í samskiptum sem endurspegla þessi gildi. Allt starfsfólk þekkir
eineltisáætlun Tjarnarinnar og er leitað til þeirra við árlega endurskoðun hennar. Með því að
samræma viðhorf og viðmið í samskiptum erum við að fyrirbyggja að einelti og annað ofbeldi fái
þrifist í umhverfi okkar. Meginmarkmiðið með því að vera með sérstaka eineltisáætlun er að
starfsfólk, börn, unglingar og foreldrar þeirra séu meðvitaðir um einelti, þekki birtingarmyndir þess
og viti hvernig bregðast skuli við komi upp grunur um einelti. Mikið er lagt upp úr því að fræða
starfsfólk um áhrif eineltis og er það bæði gert með reglulegri umræðu á starfsmannafundum sem og
formlegri fræðslu og nýtum verkfæri vináttuþjálfunar sem fyrirbyggjandi aðgerð. Eineltisáætlunin er
kynnt öllum hlutaðaeigandi, enda er það ábyrgð allra sem koma á einn eða annan hátt að starfinu
okkar að koma í veg fyrir einelti. Einn mikilvægasti liðurinn í þessu er að rýna vel í niðurstöður úr
könnunum um líðan starfsfólks og barna og unglinga og nýta þær í vinnu gegn einelti á
starfsstöðunum okkar, að kynna samskiptareglur vel. Tjörnin leggur á það ríka áherslu að
forstöðumenn frístundaheimila og félagsmiðstöðva sitji sem fulltrúar í eineltisteymum skólanna
ásamt öðrum hlutaðeigandi.
Þegar foreldrar tilkynna um einelti gegn barni sínu fylla þeir út þetta eyðublað sem þeir senda á
forstöðumann viðkomandi starfseiningar. Berist okkur ábending um einelti er hún
undantekningarlaust tekin alvarlega. Enda þótt í ljós komi að ekki sé um einelti að ræða þarf samt að
taka allar vísbendingar um óæskileg samskipti eða vanlíðan barna alvarlega og takast á við vandann í
samræmi við eðli hans.
Ef forstöðumaður óskar eftir að foreldar komi á fund í skóla- eða frístundastarfi til að ræða
hugsanlegt einelti ætti alltaf að upplýsa þá um hverjir verði á fundinum. Einnig ætti að hvetja foreldra
til að koma ekki einir á fundi heldur hafa einhvern með sér sem þeir treysta. Þannig er þess gætt að
jafnvægi ríki á fundum.
Skóla-og frístundasvið hefur útbúið gátlista sem er leiðbeinandi fyrir þá sem vinna að gerð
eineltisáætlana á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. Hann samræmir áætlun um forvarnir, inngrip
og eftirfylgd í eineltismálum í öllum hverfum borgarinnar, en gátlistann má sjá hér.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt