Félagsmiðstöðin 100og1 er 20 ára í ár.

 í flokknum: 100og1

Í ár fagnar Félagsmiðstöðin 100og1 20 ára starfsafmæli.  Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum 20 árum og miklar breytingar til hins betra hafa orðið á starfsemi 100og1 frá því hún opnaði fyrst.  Í dag er rauði þráðurinn í starfsemi félagsmiðstöðvarinnar unnin út frá Menntastefnu Reykjavíkurborgar sem hefur það að markmiði “að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs”. (www.menntastefna.is)

Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar fer fram í Spennistöðinni, félags- og menningarmiðstöð miðborgarinnar og verður að segjast að hún er ein af flottari félagsmiðstöðvum sem eru á Íslandi í dag með tilliti til húsnæðis og aðbúnaðar til faglegs frístundarstarfs. Þátttaka í starfi félagsmiðstöðvarinnar er mjög góð og samkvæmt nýlegri könnun Rannsóknar og greiningar segjast um 71% af unglingadeild Austurbæjarskóla vera virkir þátttakendur í starfi félagsmiðstöðvarinnar sem er mjög ánægjulegt og vel yfir meðaltali í borginni allri.

Í gegnum árin hafa fjölbreyttir og skemmtilegir árgangar verið þátttakendur í starfi 100og1 á einn eða annan hátt. Út frá starfseminni höfum við eignast mikið af hæfileikaríku fólki sem mörg tóku sín fyrstu skref í átt að starfsframa sínum einmitt í félagsmiðstöðinni eða á viðburðum tengdum henni. Hljómsveitin Retro Stefson varð til vegna þess að meðlimum hennar langaði á Samfés-ball, árið 2019 sigruðu fulltrúar 100og1 hönnunarkeppnina Stíl og á síðasta ári sigraði Jónas Víkingur Rímnaflæði, rappkeppni Samfés svo eitthvað sé nefnt. Við leggjum mikið upp með það í starfi okkar í félagsmiðstöðinni  að gefa ungmennum tækifæri til þess að leyfa styrkleikum og hæfileikum þeirra að njóta sín og styðjum þau til þess að elta drauma sína.

Félagsmiðstöðin er ekkert án þátttakanda og við í 100og1 er sífellt að leita leiða til þess að gera starfið okkar enn betra. Enginn er betur til þess falinn að koma með slíkar ábendingar um það sem þarf að bæta en notendurnir sjálfir; krakkarnir, unglingarnir ásamt foreldrum/forsjáraðilum þeirra. Farið er gaumgæfilega yfir allar ábendingar og fundar leiðir til þess að bregðast við þeim með velferð og hag barna og ungmenna að leiðarljósi.

Frá því að undirrituð tók við starfi forstöðumanns félagsmiðstöðvarinnar haustið 2012 er gaman að hugsa til baka og rifja upp allar minningarnar sem hafa skapast undanfarin ár. Í kjölfarið kom upp sú hugmynd að safna saman minningum þeirra sem hafa verið þátttakendur í starfi 100og1 á þessum tuttugu árum og hengja upp á vegg í félagsmiðstöðinni fyrir aðra til að sjá og njóta. Farnar voru ýmsar leiðir til þess að hafa uppi af þessum hópi og til þess að raddir sem flestra fengu að heyrast. Það stóð ekki á svörunum og var gaman að sjá hversu stóran stað í hjarta margra 100og1 á. Setningar eins og “Staðurinn sem maður gat alltaf leitað til þegar maður þurfti félagsskap”,  “Staður sem allir fengu að vera jafningjar og engum þurfti að líða eins og þau áttu ekki heima þar” eða “Ég er mjög þakklát fyrir að hafa sótt 100og1 svona mikið því ég get þakkað henni fyrir meirihlutann af mínu félagslífi” er meðal annars brot af öllum þeim fallegu orðum og setningum sem var skrifað þegar þau svöruðu spurningunni: “Hvaða hugsun eða tilfinning kemur upp þegar þú hugsar um félagsmiðstöðina 100og1?”. Á þessum svörum að dæma  sýnir það sig og sannar hvað félagsmiðstöðvar eru mikilvægar í lífi margra barna og unglinga.

Til hamingju, núverandi og fyrrum nemendur Austurbæjarskóla, foreldrar, starfsfólk 100og1 og aðrir velunnarar.  Án ykkar væri félagsmiðstöðin ekki sú sem hún er í dag.

 

Friðmey Jónsdóttir, forstöðumaður í félagsmiðstöðinni 100og1.

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt