Aðgerðateymi vegna manneklu í leikskólum og frístundastarfi

 í flokknum: 100og1, 105, Birta á forsíðu, Draumaland, Eldflaugin, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Frístundaheimili (6-9ára), Frostheimar, Frosti, Gleðibankinn, Halastjarnan, Hofið, Selið, Selið - VÁ!, Skýjaborgir, Undraland

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum þann 13. september 2017 að setja á laggirnar tvö teymi til að bregðast við manneklu í leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar.

Hlutverk aðgerðarteymanna verður að móta tillögur um aðgerðir til að bæta stöðuna í ráðningarmálum og styrkja vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla og frístundar.

Teymi vegna manneklu í leikskólum mun m.a. greina fram komnar tillögur frá leikskólastjórum og kostnað við þær svo og að leggja fram tillögur að aðgerðum sem hægt verði að ráðast í á næstu vikum með það að markmiði að styðja við starfsmannahaldið í leikskólunum. Teymið verður skipað sérfræðingum á skrifstofu skóla- og frístundasviðs og tveimur leikskólastjórum og á að skila tillögum eigi síðar en 25. september nk.

Teymi vegna manneklu á frístundaheimilum á að móta tillögur um aðgerðir til að bæta stöðuna í ráðningarmálum í frístundastarfi borgarinnar. Það á einnig að leggja fram tillögur um viðbrögð og aðgerðir sem hægt verði að ráðast í á næstu vikum með það að markmiði að styðja við starfsmannahald í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum.

Staðan í ráðningarmálum

Enn er óráðið í 96 stöðugildi í leikskólum borgarinnar, 8 stöðugildi í grunnskólum og 89 í frístundaheimilum/ sértækum félagsmiðstöðvum og eru það flest hálfar stöður.

60 leikskólakennara vantar inn í leikskólana, þar af 5 í stöðu deildarstjóra. Þá er óráðið í 18 stöður stuðningsfulltrúa. Í liðinni viku vantaði 11 deildarstjóra, 55 leikskólakennara og 20 stuðningsfulltrúa. 23 leikskólar af 64 eru fullmannaðir, í 26 leikskóla vantar fólk í 0,5 – 2,5 stöður og í 14 leikskólum er óráðið í 3-6 stöður.

Staðan í 36 grunnskólum borgarinnar er til muna betri. Í þá á einungis eftir að ráða 2-3 kennara, 5 stuðningsfulltrúa, einn skólaliða og einn starfsmann í mötuneyti.

Í frístundaheimili/sértækar félagsmiðstöðvar vantar 173 starfsmenn í tæplega 89 stöðugildi, þar af 55 starfsmenn í störf með fötluðum börnum og ungmennum. Yfirleitt er um 50% störf að ræða. Sex frístundaheimili eru fullmönnuð,  í 29 vantar 1-4 starfsmenn og í fjögur vantar fimm eða fleiri starfsmenn.

Þann 6. september hafði verið sótt um dvöl á frístundaheimilum fyrir 4.468 börn, af þeim eru 3.569 komin með fulla vistun. Börn með sérþarfir og yngstu skólabörnin njóta forgangs en önnur eru tekin inn í samræmi við umsóknartíma. Á biðlista eru 834 börn, en umsóknum fjölgaði um rösklega 200 eftir að skólastarf hófst 22. ágúst. Öll börn, sem sótt hefur verið um fyrir í sértækt félagsmiðstöðvarstarf, eru komin með hlutavistun 3-4 daga í viku.

Á sama tíma í fyrra var ómannað í rúm 70,5 stöðugildi í leikskólunum og 64 stöðugildi í frístundaheimilunum/sértækum félagsmiðstöðvum eða um 125 starfsmenn í hlutastörf og voru þá 413 börn á biðlista.

Ráðningar standa yfir þessa dagana og staðan breytist því dag frá degi.

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt