Réttindaganga barna á 30 ára afmæli Barnasáttmálans

 í flokknum: Birta á forsíðu, Draumaland, Eldflaugin, Frístundaheimili (6-9ára), Halastjarnan, Selið, Skýjaborgir, Undraland

Barnaréttindavika frístundaheimila á vegum Tjarnarinnar stendur nú sem hæst og hefðinni samkvæmt var farið í Réttindagöngu um miðborgina á miðvikudaginn. Þess var líka minnst að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er 30 ára í dag þannig að Réttindagöngunni lauk með afmælishátíð í Listasafni Reykjavíkur.

250 börn í 2. bekk á frístundaheimilunum Draumalandi við Austurbæjarskóla, Eldflauginni við Hlíðaskóla, Halastjörnunni við Háteigsskóla, Selinu við Melaskóla, Skýjaborgum við Vesturbæjarskóla og Undralandi við Grandaskóla fóru með spjöld í réttindagöngu í dag. Markmið göngunnar er að veita börnunum vettvang og pláss í almannarými til þess að fagna lögvörðum réttindum sínum og minna aðra á þau. Ber þar hæst ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Eitt af meginmarkmiðum frístundaheimilanna er að börn hafi val um þátttöku og viðfangsefnin í starfinu og að lýðræðisleg vinnubrögð séu í heiðri höfð. Mikið er lagt upp úr því að hlusta eftir röddum barnanna og  fá fram skoðanir þeirra á stórum jafnt sem smáum málefnum þannig að þarfir þeirra og óskir leggi grunninn að öllu starfinu. Í Réttindaviku er börnunum m.a. kennt hvað ákvæði Barnasáttmálans fela í sér, þau kynnast því hvað felst í lýðræðislegum vinnubrögðum og læra hvaða munur er á réttindum og forréttindum.

Barnasáttmálinn fjallar um ýmis mikilvæg réttindi barna, en þeim má í grófum dráttum skipta í þrjá flokka; vernd, umönnun og þátttöku. Almennur skilningur er á því að börn eigi rétt á umhyggju og vernd, jafnt foreldra sinna sem og samfélagsins alls, enda eru vernd og umhyggja í hugum flestra tengd grunnréttindum barna órjúfanlegum böndum. Réttur barna til þátttöku og þess að tekið sé tillit til skoðana þeirra á málum er þau varða í samræmi við aldur þeirra og þroska og er hins vegar alla jafna ekki jafn mikið í umræðunni og fólki er kannski ekki jafn tamt að tengja þessi þætti grunnréttindum barna. Með löggildingu Barnasáttmálans var réttur barna til þátttöku hins vegar gerður jafn rétthár rétti þeirra til verndar og umhyggju. Á það var bent í Réttindagöngunni í dag sem miðar að því að styrkja rödd barna í samfélaginu.

Gengið var frá Skólavörðuholti  að Hafnarhúsinu þar sem borgarstjóri bauð börnunum upp á hátíðardagskrá og veitingar.

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt