Rafrænar félagsmiðstöðvar fyrir 8.-10.bekk

 í flokknum: Birta á forsíðu

Í kjölfar samkomubanns og fyrirskipun um takmörkun á skólastarfi hefur félagsmiðstöðvum reynst erfitt að finna leið til að framkvæma starfið á þann hátt að hópar skarist ekki og starfsfólk vinni ekki með mismunandi hópa eins og reglur um takmörkun á skólastarfi kveða á um. En þar sem við erum með einstaklega úrræðagott starfsfólk hafa félagsmiðstöðvar Tjarnarinnar fikrað sig áfram í að halda úti rafrænu félagsmiðstöðvastarfi fyrir 13-16 ára hópinn og hefur það gengið mjög vel.

Viðburðirnir hafa verið fjölbreyttir og hefur þátttaka verið mjög góð og áhorf mikið. Eins og venjulega í öllu okkar félagsmiðstöðvastarfi eru viðburðirnir blanda af heilsueflingu, félagslegum og skapandi viðburðum. Við leggjum mikið upp úr því að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi en ofar öllu að viðburðirnir séu skemmtilegir og uppbyggilegir. Boðið hefur verið upp á allskyns áskoranir, trúnó í beinni og okkar allra bestu spurningaleiki og spil. Starfsfólkið okkar hefur beitt öllum ráðum við að finna skemmtilegar lausnir til að hreyfa sig heima við eða hvetja til útivistar. Einnig hafa þau lagt mikið á sig til að hlúa að andlegu heilbrigði unglingana okkar og fundið til æfingar sem beina athyglinni inn á við og efla jákvæðni, gleði og styrkja þau á þessum skrýtnu tímum. Það er svo aldrei langt í grínið hjá okkur og því hefur starfsfólkið tekið upp hin ýmsu myndbönd til að létta lund unglinganna.

Unglingarnir geta tekið þátt í gegnum samfélagsmiðla og hafa einnig verið dugleg að hringja í félagsmiðstöðina og leita leiða til að taka þátt. Þar sem takmarkanir hafa hamlað okkur undanfarið í þjónustu við unglingana munum við nú gera tilraun með að hafa félagsmiðstöðvarstarfið alfarið rafrænt næstu vikuna og meta aftur stöðuna að þeim tíma loknum.

Einnig er virkilega mikilvægt að huga að forvarnarstarfi nú þegar takmörkun er á skólastarfi og íþrótta- og æskulýðsstarf liggur að mestu niðri. Því mun starfsfólk félagsmiðstöðvanna einnig halda úti leitarstarfi næstu vikur til að kortleggja stöðuna í hverfinu og sporna við óæskilegri hópamyndun og áhættuhegðun unglinga.

Hægt verður að nálgast nánari upplýsingar um rafræna starfið á heimasíðu félagsmiðstöðvanna.

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt