Jólamarkaður 5. desember

 í flokknum: Skýjaborgir

Sælir kæru foreldrar og forráðamenn

Jólamarkaður fjölskyldunnar verður haldinn fimmtudaginn 5. desember milli klukkan 16 og 18 í frístundamiðstöðinni Tjörninni. Um árlegan viðburð er að ræða þar sem börnin í öllum sjö frístundaheimilum Tjarnarinnar selja föndur og ýmislegt jólagóðgæti sem þau hafa búið til, ásamt því sem við erum með ,,pop up” kaffihús þar sem fjölskyldum býðst að kaupa heitt kakó og piparkökur og ískalt jólakrap til að koma sér í jólagírinn. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til SOS barnaþorpa og fer beint í aðstoð við börn sem búa við afar bágar aðstæður.

Með þessu kynningarbréfi viljum við biðla til foreldra og annarra velunnara verkefnisins að aðstoða okkur við að ná meginmarkmiði jólamarkaðsins, sem er að leggja börnunum ykkar, sem hafa lagt hart að sér við að búa til söluvarning, lið og hjálpa þeim þannig að hjálpa börnum sem svo sannarlega eru hjálparþurfi. Upphæðinni sem börnin safna verður síðan skipt í 7 jafna hluta og fá börnin í hverju frístundaheimili fyrir sig að gerast ,,styrktarsystkini” barns í barnaþorpi SOS. Sem styrktarsystkini fá börnin reglulegar myndir og fréttir af því hvernig ,,systkini” þeirra vegnar og geta þau sent því bréf og myndir og sagt frá starfinu í frístundaheimilinu og þannig átt í samskiptum við ,,styrkarsystkini” sitt í gegnum frístundaheimilið. Með þessu móti verður aðstoðin sem þau veita enn raunverulegri fyrir þeim og auðveldar þeim að sjá hvers virði vinnan þeirra er. Hægt er að fræðast nánar um SOS barnaþorp og verkefnin þeirra á heimasíðu þeirra:, https://www.sos.is/

Í tengslum við jólamarkaðinn hafa starfsmennirnir okkar lagt sig fram við að kynna markmið hans vel fyrir börnunum og hafa í þeim tilgangi nýtt fræðsluefni frá SOS til þess að veita þeim betri innsýn inn í aðstæðurnar sem jafnaldrar þeirra víða um heim búa við. Þannig öðlast þau betri skilning á því hversu miklu máli það skiptir að þeir sem búa við sára neyð að fá aðstoð frá þeim sem betur eru settir. Þetta hjálpar börnunum að setja vinnuna sína í samhengi og hvetur þau áfram til að vinna á óeigingjarnan hátt öðrum til góða.

Jólamarkaður fjölskyldunnar var fyrst haldinn árið 2007 og er því haldinn í þrettánda skiptið í ár. Með ágóðanum af honum hefur börnunum í frístundaheimilunum  tekist að styrkja börn sem ekki njóta sömu lífsgæða og þau um tæplega þrjár milljónir frá upphafi. Hlýtur það að teljast afar góður árangur hjá 6-9 ára gömlum börnum og sýnir vel hversu knáir smáir geta verið fái þeir réttan stuðning til góðra verka. Framlag litlu barnanna ykkar og auðvitað ykkar sem verslið við þau með bros á vör vegur því verulega þungt við að gefa öðrum börnum tækifæri til betra lífs.

Það er einlæg ósk okkar og von að sem flest ykkar sjáið ykkur fært að koma á markaðinn og sjá hvað börnin hafa lagt á sig til þess að leggja öðrum börnum lið. Þannig leggið þið þeim lið við að veita þennan mikilvæga fjárstuðning. Þið megið vera stolt af þeim krafti sem býr í börnunum ykkar og þeirra ríku samkennd sem þau búa yfir.

Hlökkum til að sjá ykkur í Tjörninni Frostaskjóli 2 (sama hús og KR) fimmtudaginn 5. desember milli kl. 16:00 og 18:00 J Ath. að næg bílastæði eru við frístundaheimilið Frostheima og Grandaskóla, sem eru í örfárra metra fjarlægð frá Tjörninni.

 

Fyrir hönd frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar,

Steinunn Gretarsdóttir

Deildarstjóri barnasviðs

 

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt