Hjartarými

Hjartarými Undralands er gangurinn sem gengið er inn á þegar komið er inn úr forstofunni Rekagrandamegin í Grandaskóla. Þar er valtaflan okkar og þar dvelur valstjóri dagsins, starfsmaður sem hefur yfirsýn yfir hvar börnin eru og hjálpar foreldrum þegar þeir koma að sækja þau.

Hjartarýmið er ekki valsvæði, en þar er margt um að vera; börn að velja hvað þau ætla að gera, foreldrar að sækja börn, börn að fá plástur, börn að fá sér nasl, börn og foreldrar að leita að óskilamunum, o.s.frv. Í hjartarýminu geyma börnin fötin sín og töskur og stimpla sig út þegar þau fara heim.

Íþróttasalur:

Undraland fær dagleg afnot af íþróttasal Grandaskóla og er hann í boði alla daga. Við leggjum mikið upp úr hreyfingu og að sem flestir fái að hreyfa sig einhvern tíma dagsins.

Í íþróttasalnum fara fram skipulagðir leikir en þó er stundum frjáls leikur þar sem allskonar dót er dregið fram og íþróttasalurinn settur upp sem sirkus. Í íþróttasalnum eru líka stundum danspartý og jafnvel bíósýningar.

Perlur:

Mikil perlumenning er í Undralandi og er perlað í matsal skólans. Leitast er við að hafa leiðbeiningar sem henta getu hvers og eins og erum við í Undralandi dugleg við að perla það nýjasta og tæknilegasta.

Straujað er á nær hverjum degi og geta börnin tekið sköpunarverk sín með sér heim. Börnin geta einnig geymt perl sem verið er að vinna í, allavega í nokkra daga.

Listir:

Listir er heiti listastofunnar okkar. Á hverjum degi er hægt að teikna og föndra þar inni, en reglulega er skartgripa-, vinabanda- og teiknimyndasögugerð, málning, origami, puttaprjón og önnur skapandi vinna unnin þar.

Matreiðslustofa:

Undraland hefur aðgang að matreiðslustofu Grandaskóla og er hún nýtt reglulega til baksturs- og matargerðar. Við reynum að hafa hráefnin holl og góð en stundum laumast matgæðingar Undralands til að baka eitthvað sætt, svona fyrir sálina.

Útivist:

Undraland nýtir lóð Grandaskóla til útivistar, ásamt lóð húss Undralands. Starfsmaður ákveður það svæði sem er í boði hverju sinni. Fótboltavöllur, rólur, klifurgrindur, vegasölt og annað útidót er á svæðinu.

Frjáls leikur er hafður að leiðarljósi í útivistinni en oft farið í skipulagða útileiki eins og Eina krónu og feluleik. Börn geta hvenær sem er dagsins skipt úr valinu sínu yfir í útivist og þurfa því ekki að bíða eftir skiptitíma.

Spil:

Undraland á fjöldamörg skemmtileg spil fyrir börn. Sumir dagar eru tileinkaðir sérstökum spilum þar sem starfsmaður kennir spilið og spilar með börnunum.

Hægt er að spila allt frá minnisspilum og tafli, upp í ævintýraspil eða spil sem fela í sér leikræna tjáningu. Einnig er vinsælt að spila handspil; ólsen ólsen og veiðimann. Spilin eru aðgengileg og spilaleiðbeiningar til fyrir hvert einasta spil.

Bókahorn/kósýhorn:

Bókahornið er kósýhorn þar sem hægt er að hagræða sér með góða bók eða Andrés-blað og eiga notalega stund.

Einu sinni í viku er leikjatölva í boði, á föstudögum. Þá skiptast börnin á að spila skemmtilega leiki sem henta þeirra aldri. Á tyllidögum er í boði að horfa á bíómynd í kósýhorninu.

Legó, seglakubbar og Sylvania:

Legó, Kubbum og Sylvania er skipt upp og velja börnin eitthvað af þessu þrennu. Í Legóinu eru kynstrin öll af legókubbum til að byggja allskonar háhýsi, skip, lestar, fjölskyldugarða og fleira. Seglakubbar eru vinsælir og skemmtilegir kubbar þar sem hægt að nota ímyndunaraflið eða leiðbeiningar til að gera skemmtilega skúlptúra. Í Sylvania eru lítil dúkkuhús og litlir Sylvaniu-bangsar, en einnig eru þar dýr og fleira smádót sem hentar vel fyrir rólegan leik.

Þetta eru okkar helstu svæði. Ath. að svæðin geta breyst eftir þörfum og húsnæði frístundaheimilisins.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt