Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan

 í flokknum: Birta á forsíðu

11-15. nóvember verður hin árlega félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan haldin hátíðleg á Íslandi. Markmið með vikunni er að vekja athygli á því uppbyggilega frístundastarfi sem þar fer fram  fyrir börn og unglinga og bjóða gestum að kynnast því.

Allar félagsmiðstöðvar í Reykjavík bjóða upp á dagskrá í tilefni vikunnar miðvikudaginn 13.nóvember. Þar má bæði kynna sér hefðbundin viðfangsefni í starfi félagsmiðstöðva og sérstakar uppákomur sem tileinkaðar eru deginum.

Í 100og1 í Miðborginni gefst tækifæri til að skoða þær breytingar sem búið er að gera á aðstöðu félagsmiðstöðvarinnar en aðstaðan í Spennistöðunni hefur aldeilis fengið andlitslyftingu. Það verður einnig hægt að skella sér í Kahoot, Nintendo Switch eða grípa í alls konar spil.

Í Gleðibankanum verður fjölbreytt dagskrá frá 18-21 og frábært tækifæri fyrir fjölskyldu og vini til að kynnast félagsmiðstöðvarstarfinu sem að krakkarnir sækja. Þau munu vera með rólega stemmingu þar sem boðið verður uppá spil og vandræðavöfflur. Einnig verða kleinur, kaffi og djús í boði fyrir gesti og gangandi. Hlökkum til að sjá sem flesta.

Í Frosta verður fjölbreytt dagskrá yfir daginn. Frá 17:00-18:30 verður dagskrá fyrir 10-12 ára og svo á milli 19:30-21:30 verður dagskrá fyrir 13-16 ára. Þau munu bjóða foreldrum og forsjáraðilum  að koma og skoða aðstöðuna og spjalla við starfsfólk Frosta. Boðið verður uppá veitingar og kaffi yfir allan daginn.

Í 105 verður meðal annars í boði hinn geysivinsæli leikur Hjartsláttur, Vandræðavöfflur og Nintendo Switch mót. Þá er einnig í boði að koma og skoða aðstöðuna og spjalla við starfsfólk 105. Boðið verður uppá köku, kleinur, kaffi og djús fyrir gesti og gangandi.

Hofið býður foreldra, forráðamenn og aðra fjölskyldumeðlimi velkomna á félagsmiðstöðvadaginn á milli 16 og 18. Það verður kaffi og kaka á boðstólnum, spil og Just Dance sem hefur verið í miklu uppáhaldi í Hofinu.

Hinsegin félagsmiðstöð Tjarnarinnar og Samtakanna 78 mun opna dyrnar sínar fyrir öllum þeim sem áhuga hafa á að kynna sér starfið, hitta starfsfólk og fá að upplifa á eigin skinni hvað er svona töfrandi við þessar félagsmiðstöðvar. Þau ætla að taka þátt í fyrsta skipti og bjóða öllum áhugasömum velkomna milli 19:30-22:00.

Félagsmiðstöðvar Reykjavíkur verða allar með virkilega áhugaverða dagskrá í boði. Í Laugó í Laugardalnum verður hægt að skoða ljósmyndasýningu, taka þátt í lan-klúbbi, blindrabolta, pílumóti, foreldra „gang-beast“ móti og njóta léttra veitinga. Í Sigyn í Grafarvogi verður hægt að taka þátt í smiðjuvinnu og læra að gera vinabönd, kleinuhringi eða perla merki/lógó Sigynjar. Einnig verður farið í spurningakeppnina „Allt eða ekkert“ og hægt að horfa á myndbönd frá skemmtilegum viðburðum í starfinu. Bakkinn í Breiðholti býður gestum að taka þátt í bingó, fara í pool, borðtennis, Nintendo, foozball og margt fleira skemmtilegt. Í Holtinu í Norðlingaholti munu unglingar kenna gestum dans, hægt verður að hlusta á tónlistaratriði þegar unglingar stíga á stokk og svo verður hægt að skella sér í pógó-keppni sem er sívinsæll leikur í félagsmiðstöðvum borgarinnar. Höllin í Grafarvogi ætlar að bjóða gestum að kynna sér starfið, taka þátt í brjóstsykursgerð og bollamálun auk þess sem skorað verður á foreldra í borðtennis og Playstation.

Yfirlit yfir félagsmiðstöðvar í Reykjavík er að finna á heimasíðu skóla- og frístundasviðs. Dagskrá dagsins og opnunartíma allra félagsmiðstöðva í Reykjavík og heimilisföng má finna á heimasíðum þeirra og samfélagsmiðlum.

Félagsmiðstöðvadagurinn er haldinn á öllu landinu fyrir tilstilli SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, en dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005.

Verið velkomin,

börn, unglingar og frístundaráðgjafar í félagsmiðstöðvunum í Reykjavík.

Frekari upplýsingar um félagsmiðstöðvadaginn veitir Sigrún Sveinbjörnsdóttir á frístundaskrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar í síma 695-5044.

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt